Lögreglan á Ísafirði gerði 18 grömm af kannabisefnum upptæk

Á sjöunda tímanum í morgun stöðvaði lögreglan á Ísafirði par sem var að koma akandi frá Reykjavík. Stöðvunarstaðurinn var á Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði. Um er að ræða aðila sem eru þekktir hjá lögreglu vegna fíkniefnamála. Við leitina fundust rúmlega 18 grömm af ætluðum kannabisefnum, sem annar aðilinn hefur játaða að hafa kastað frá sér. Það var fíkniefnaleitarhundurinn Dofri sem vísaði lögreglunni á efnið.

Í framhaldi af þessum handtökum framkvæmdi lögreglan húsleitir í tveimur íbúðum í Bolungarvík og var þriðji aðilinn í málinu handtekinn þar. Í húsleitunum fundust áhöld sem virðast hafa verið notuð til fíkniefnaneyslu. Leitirnar og rannsókn máls þessa vann lögreglan á Ísafirði í samstarfi við lögregluna í Bolungarvík.

Efnin voru sögð ætluð til einkaneyslu. Málið telst upplýst og aðilum hefur verið sleppt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert