Gangandi og hjólandi vegfarendur við hina nýju Hringbraut eru ekki hressir með framgang verkefnisins, þar sem enn hefur ekki verið lokið við frágang stíga eða uppsetningu lýsingar við göngu- og hjólreiðaleiðir og lenda vegfarendur enn í ýmsum erfiðleikum.
Bæði er frágangi ábótavant nálægt gatnamótum Hringbrautar, Miklubrautar, Bústaðavegar og Snorrabrautar, þar sem gönguleiðir eru margar enn ófrágengnar og illfærar og einnig við gatnamót Hringbrautar og Njarðargötu, en göngubrýrnar þar hafa sætt gagnrýni vegfarenda sem segja þær í senn óaðlaðandi og allt of langar.
Við Rauðarárstíg er vegfarendum gert mjög erfitt fyrir að komast leiðar sinnar inn eftir Miklatúni og inn í Hlíðahverfið, auk þess sem víða liggja aðföng verktaka yfir gangstéttum. Víða er í stað gangstétta óslétt og gróf möl og grús þakin ýmiss konar drasli. Samfara skorti á lýsingu getur þetta ástand valdið aukinni slysahættu á þessum svæðum.