Fjársafnanir Rauða kross Íslands og Hjálparstarfs kirkjunnar til neyðaraðstoðar í Pakistan, í kjölfar jarðskjálftanna þar í landi, ganga ágætlega, að sögn talsmanna safnananna. Rauði krossinn hefur safnað samtals um fimmtíu milljónum króna og Hjálparstarf kirkjunnar um fimm milljónum.
"Okkur hefur gengið mjög vel," segir Konráð Kristjánsson, starfandi sviðsstjóri útbreiðslusviðs Rauða kross Íslands. Af þessum fimmtíu milljónum hafa um átta milljónir safnast í almennri símasöfnun og aðrar átta í framlögum frá einstaklingum og fyrirtækjum.
Rauði krossinn hóf að safna til hjálparstarfsins í Pakistan strax í kjölfar jarðskjálftanna í byrjun október sl. Söfnunarsíminn er 907-2020. Sé hringt í símann verða þúsund krónur dregnar af viðkomandi símareikningi.
Jónas Þórir Þórisson, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, segir að tvær fjársafnanir séu nú í gangi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar. Annars vegar sé verið að safna til hjálparstarfsins í Pakistan en hins vegar sé verið að safna til vatnsverkefna í þremur Afríkuríkjum. Fyrrnefnda söfnunin fari fram í gegnum síma en í síðarnefndu söfnuninni hafi gíróseðlar verið sendir heim til fólks. "Söfnunin fyrir Pakistan hefur gengið ágætlega miðað við allar aðstæður. Við höfum þegar safnað um fimm milljónum." Söfnunarsíminn er: 907-2002.