Nýr framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Halla Tómasdóttir.
Halla Tómasdóttir.

Framkvæmdastjórn Viðskiptaráðs Íslands hefur ráðið Höllu Tómasdóttur sem framkvæmdastjóra ráðsins frá 1. mars n.k. Hún tekur við starfinu af Þór Sigfússyni, sem nýlega var ráðinn forstjóri Sjóva.

Halla lauk BS-gráðu í viðskiptafræði frá Auburn háskólanum í Montgomery í Bandaríkjunum og MBA gráðu í alþjóðlegum viðskiptum frá Garvin Graduate School of International Management (Thunderbird). Undanfarin tvö ár hefur Halla stundað doktorsnám í viðskiptafræði við Cranfield háskólann í Bretlandi.

Halla stýrði stjórnendaskóla HR frá stofnun og gegndi framkvæmdastjórastöðu átaksins Auður í krafti kvenna, samhliða því sem hún var lektor við Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Halla hefur setið í stjórn Vistor hf. og Calidris ehf. frá árinu 2002 og sat í stjórn Sjóvá frá 2004-2005. Á árunum 1994-1996 starfaði Halla sem starfsmannastjóri hjá Mars Inc. í Bandaríkjunum og frá 1996-1998 gegndi hún starfsmannastjórastöðu hjá Pepsi Cola áður en hún réði sig sem starfsmannastjóra Íslenska útvarpsfélagsins árið 1998 og gegndi þeirri stöðu til ársins 1999 þegar hún gekk til liðs við Háskólann í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert