Dagur með mest fylgi innan Samfylkingar samkvæmt könnun

Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson mbl.is/Golli

Í könnun sem Frjáls verslun gerði dagana 5.-11. janúar fyrir vefsvæðið heimur.is varð Dagur B. Eggertsson hlutskarpastur meðal Samfylkingarfólks þegar spurt var hverjum menn treystu best til þess að leiða lista Samfylkingarmanna. Í sömu könnun kemur fram að Sjálfstæðismenn myndu fá hreinan meirihluta í borginni en fylgi Samfylkingarinnar hefur vaxið að undanförnu.

Í könnuninni var spurt: Hverju eftirtalinna treystir þú best til að leiða lista Samfylkingarinnar í Reykjavík: Degi B. Eggertssyni, Stefáni Jóni Hafstein eða Steinunni Valdísi Óskarsdóttur?

Samtals voru 661 spurð. Um 40% vildu hvorugt, voru óviss eða neituðu að svara. Af þeim sem afstöðu tóku sögðust 40% treysta Stefáni Jóni best, en um 36% Degi og 24% Steinunni Valdísi. Munurinn á Stefáni Jón og Degi er ekki tölfræðilega marktækur. Steinunn Valdís er hins vegar með marktækt minna fylgi en þeir báðir.

Ef sérstaklega er litið á þá sem sögðust ætla að kjósa Samfylkinguna breyttist myndin. Þá var Dagur efstur með 40%, Stefán Jón fékk stuðning 35% og Steinunn Valdís 25%. Munurinn á Degi og Stefáni er ekki tölfræðilega marktækur. Steinunn Valdís er hins vegar með marktækt minna fylgi en þeir báðir.

Ennfremur var spurt um fylgi við einstaka lista vegna borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík. Niðurstaðan er sú að Sjálfstæðismenn voru mest fylgi, eða um 50%. Samfylkingin kom næst með 37%. Vinstri grænir fengju um 10%, Framsóknarflokkur og Frjálslyndi flokkurinn fengu 1-2% og kæmu ekki að manni samkvæmt þessu. Sjálfstæðisflokkurinn væri þá með hreinan meirihluta í borginni með átta menn. Samfylkingin fengi sex og Vinstrihreyfingin-grænt framboð einn.

Könnunin er birt í heild sinni á vefsvæðinu heimur.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka