Tillaga um að falla frá Norðlingaölduveitu samþykkt í borgarstjórn

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti tillögu um að Landsvirkjun eigi að falla …
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti tillögu um að Landsvirkjun eigi að falla frá áformum um Norðlingaölduveitu. mbl.is/Júlíus

Tillaga Ólafs F. Magnússonar, borgarfulltrúa F-lista, um að falla frá áformum um Norðlingaölduveitu, var samþykkt með 9 samhljóða atkvæðum Ólafs og fulltrúa Reykjavíkurlistans á fundi borgarstjórnar í dag. Sex borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá en létu jafnframt bóka, að þeir hvettu Landsvirkjun til að leita annarra kosta til að koma til móts við stórkaupendur á raforku með virkjun gufuafls eða vatnsafls og að áform um Norðlingaölduveitu verði lögð til hliðar.

Tillaga Ólafs var svohljóðandi: Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að Reykjavíkurborg sem 45% eignaraðili Landsvirkjunar leggist gegn öllum frekari virkjunarframkvæmdum í Þjórsárverum og að fallið verði frá gerð Norðlingaölduveitu.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir lagði á fundi borgarstjórnar fram viðaukatillögu frá fulltrúum R-listans, sem hljóðaði svo: Þess í stað er því beint til Landsvirkjunar, að fyrirtækið skoði möguleika á uppbyggingu gufuaflsvirkjana, sem er umhverfisvænni kostur en vatnsaflsvirkjanir. Tillögurnar voru bornar upp saman og samþykktar samhljóða eins og áður sagði.

Í bókun Sjálfstæðisflokksins er m.a. vísað til þess, að sveitarfélagið sem Norðlingaölduveita, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, er staðsett hafi lagst gegn framkvæmdinni. Taka eigi tillit til afstöðu sveitarstjórnarinnar í þessu máli. Þá sé óvíst hver verður niðurstaða samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins en þar sé málið í lögbundnu ferli. Að auki standi yfir dómsmál, þar sem stefnendur telji að úrskurður Jóns Kristjánssonar, setts umhverfisráðherra, um Norðlingaölduveitu hafi verið ólögmætur.

Þá segir í bókuninni, að ákvörðun um Norðlingaölduveitu sé nú komin á byrjunarreit að nýju og alls ekki ljóst á þessari stundu, hver niðurstaða málsins verði. Raunar hnígi rök að því að frá því verði horfið að ráðast í veituna í núverandi mynd, auk þess sem áform séu uppi um að stækka friðland Þjórsárvera enn frekar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka