Mótmælir aðferðum vegna stofnunar undirbúningsfélags fyrir skemmti- og fræðisetur á sviði vísinda og tækni

Valdimar Össurarson, ferðaþjónustumaður í Villingaholtshreppi í Flóa á Suðurlandi, hefur sent Ara Ólafssyni, dósent í eðlisfræði og upphafsmanni stofnunar félags sem mun undirbúa stofnun og rekstur skemmti- og fræðaseturs á sviði vísinda og tækni, bréf þar sem hann mótmælir vinnubrögðum við stofnun félagsins í síðustu viku og er ósáttur með að ekkert samráð hafi verið haft.

Valdimar segist hafa unnið að svipaðri hugmynd í hátt í þrjú ár og fyrir skömmu náð þeim áfanga að fá opinberan stuðning til að vinna málið áfram. Hann segir stuðning ríkisins við hugmynd sína að Tæknisafni Íslands vera viðurkenningu á því að hann hafi forgöngu í málinu og þykir því ankannalegt að nú komi fram háskólar, sem séu á framfæri ríkisins, og taki hluta úr hugmynd hans og ætli að reka skemmtigarð.

Meginatriðið í hugmynd Valdimars er að Tæknisafn Íslands muni reyna að vekja áhuga ungs fólks og nemenda á raungreinum, eins og erlend tæknisöfn eru byggð upp. Ætlunin er að útskýra vísindi og tækni, eðlisfræði og aðrar náttúrufræðigreinar. Einnig að halda upp á tækniþróunarsögu hér á landi og halda á lofti heiðri íslenskra uppfinningamanna.

Valdimar segist hafa viðrað hugmyndir sínar við Ara Ólafsson tvisvar sinnum, en einnig hafi hann átt fund með Guðjóni Magnússyni hjá Orkuveitu Reykjavíkur og kynnt hugmyndir sínar rækilega á fundi sem Kennaraháskólinn gekkst fyrir í apríl síðastliðnum. Hann segir alla aðila vinna gegn betri vitund og þykir undarlegt að ekki hafi verið komið að máli við hann áður en undirbúningsfélagið hafi verið stofnað.

Tvær ólíkar hugmyndir

Ari Ólafsson segir rétt að Valdimar hafi kynnt hugmyndina að Tæknisafni Íslands fyrir sér en vísar til þess að þar sé fyrst og fremst um minjasafn að ræða. Það sé því gjörólíkt þeirri hugmynd sem undirbúningsfélagið vinni nú að. Ari segir að innan skemmti- og fræðasetursins eigi meðal annars að vera endurmenntunarkerfi fyrir kennara í raunvísindum sem ekki eigi sér neina stoð í hugmyndum Valdimars.

Þá muni þar einnig verða þjónustukerfi fyrir kennara þar sem þeir geta fengið ráðgjöf í tengslum við endurmenntunina. Setrið verður jafnframt hugsað fyrir almenning í því skyni að gestir geti tekið þátt og fengið að gera tilraunir á þeim uppstillingum sem þar eru, s.s. eins og vísir er að í vísindatjaldinu í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og í Rafheimum hjá OR.

Ari segir að unnið sé í nánu samstarfi við þessa aðila og er verið að útfæra þá hugmynd á breiðari grunni. Ari útilokar ekki að samráð verði haft við Valdimar í framhaldinu en telur ólíklegt að sameinast verði um eina stofnun, þar sem verksvið þeirra skarist lítið sem ekkert.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert