Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra spáir því að Íslendingar verði orðnir aðilar að Evrópusambandinu árið 2015. Segist hann telja að það sem verði einkum ráðandi í umræðu um það á næstunni sé framtíð og stærð evrópskra myntbandalagsins. Þetta kom fram í ræðu forsætisráðherra á Viðskiptaþingi 2006 - Ísland 2015.
Segir Halldór að ekki sé hægt að líta fram til ársins 2015 án þess að velta fyrir sér hver sé besta leiðin til að tryggja stöðu Íslands í áframhaldandi alþjóðavæðingu.
„Við munum búa við meira viðskiptafrelsi og frjálsari fjárfestingastefnu. Í skýrslu Viðskiptaráðs er mikil áhersla lögð á alþjóðavæðinguna og þá möguleika sem hún skapar. Þar er hins vegar ekkert að finna um það hvort samningurinn um evrópska efnahagssvæðið sé nægilegur grundvöllur í þeirri sýn sem þar kemur fram.
Stóra spurningin er hvort við verðum þá með sjálfstæða íslenska krónu eða hvort við verðum orðnir fullgildir aðilar að Evrópusambandinu. Við verðum að viðurkenna að sveiflur í gengi íslensku krónunnar eru vandamál og spurningar eru uppi um möguleika lítilla gjaldmiðla á frjálsum fjármálamarkaði.
Ég spái því reyndar að við verðum orðnir aðilar að Evrópusambandinu árið 2015. Ég tel að það sem verði einkum ráðandi í umræðu um það á næstunni sé framtíð og stærð evrópskra myntbandalagsins. Ákvarðanir Dana, Svía og Breta hafa þar veruleg áhrif. Það eru hins vegar engar pólitískar forsendur fyrir ákvörðun nú af okkar hálfu. Til þess er umræðan ekki nægilega þroskuð. Forsenda þess að málið þroskist betur er að atvinnulífið láti það til sín taka með mun virkari hætti. Ég hef alltaf undrast litla umræðu atvinnulífsins um Evrópumálin. Launþegahreyfingin hefur einhverra hluta vegna staðið fyrir meiri umræðu. Hvað veldur veit ég ekki.
Hitt finnst mér augljóst að því verður ekki frestað lengi, hvorki í atvinnulífinu né á vettvangi stjórnmálanna. Það á ef til vill við í þessu máli líkt og í flestum öðrum stórum málum að þótt við vitum hvað verður þá sé það ekki líklegt til vinsælda. Óttinn við að rugga bátnum sé of mikill. Þegar ekkert kallar á skjóta niðurstöðu og vel gengur er oft þægilegra að fresta því," að sögn Halldórs.
Tímabært að endurskoða fjárfestingu útlendinga
Forsætisráðherra telur tímabært að endurskoða fyrri ákvarðanir sem takmarka fjárfestingu erlendra aðila í tilteknum atvinnugreinum, til dæmis í sjávarútvegi.
„Hér áður fyrr voru góð og gild rök fyrir slíkum takmörkunum en við verðum að horfast í augu við það alþjóðlega viðskiptaumhverfi sem við búum nú við þar sem fjármagn, fólk og fjárfestingar flæða mikið til óhindrað yfir landamæri. Ég tel að slíkar takmarkanir geti dregið úr möguleikum okkar til að laða erlent fjármagn inn í íslenskt efnahagslíf," að sögn Halldórs.
Halldór vék að skýrslu Viðskiptaráðs sem gefin var út af tilefni Viðskiptaþingsins þar sem fjallað er um framtíðarsýn Íslands til ársins 2015.
Sagðist hann vilja leyfa sér að vera ósammála upphafsorðum skýrslunnar þar sem segir að tíu ár séu langur tími í stefnumörkun.
„Það kann að hafa átt við um Ísland fyrir 15 til 20 árum þegar hér var mikill óstöðugleiki í efnahagsmálum. Við þær aðstæður var enginn vegur að hugsa nokkra vitræna hugsun nema til skamms tíma, hvað þá að gera áætlanir til einhverra ára í senn. Menn lifðu frá degi til dags og það gilti jafnt um stjórnendur fyrirtækja, heimilin og okkur stjórnmálamennina.
Nú er þetta sem betur fer allt breytt. Efnahagsumhverfið er orðið stöðugt og sama gildir um stjórnmálin. Það er ekki sami grundvallarágreiningur um stefnumörkun og fyrr. Fyrir 20 árum voru menn ósammála um hvaða hlutverki ríkisfjármálin ættu að gegna í efnahagslífinu. Að það skipti yfirhöfuð einhverju máli hvort ríkissjóður væri rekinn með halla eða afgangi. Þetta viðhorf er gjörbreytt og ég hygg að það sé leitun að þeim þingmönnum sem ekki telja að ríkisfjármálin eigi að gegna miklu hlutverki í hagstjórninni.
Fyrir 20 árum voru menn líka afar ósammála um grundvallarbreytingar í sjávarútvegi sem voru lykilatriði í framþróun efnahagslífsins. Það hefur einnig breyst. Fyrir 10 árum voru menn ósammála um einkavæðingu bankanna og enn eru uppi efasemdir um nýlegar breytingar á fjarskipta- og raforkumarkaði svo dæmi séu tekin.
Hitt er svo annað mál að tölusettar áætlanir eru mikilli óvissu háðar og auðvitað verður óvissan þeim mun meiri því lengra fram í tímann sem horft er. Sem betur fer verður þróunin hins vegar oft betri og hagstæðari en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Hver hefði til dæmis trúað því á árinu 1995 að kaupmáttur heimilanna ætti eftir að aukast um 60% fram til ársins 2005? Eða að hagvöxtur ætti eftir að aukast um meira en 50%? Ekki einu sinni við sem sátum í ríkisstjórn á þeim tíma hefðum þorað að setja fram slíka bjartsýnisspá enda vorum við, til dæmis í mínum flokki, sökuð um óraunsæi fyrir mun varkárari spár.
Með samstilltu átaki hefur okkur tekist að umbylta íslensku efnahags- og atvinnulífi og losa um þá fjötra sem það var áður hneppt í. Sala á hlut ríkisins í fyrirtækjum í samkeppnisrekstri var stórt skref í þessa átt til aukins frjálsræðis og fjölbreytileika í íslensku efnahagslífi. Síðastliðin 14 ár hafa 44 slíkar sölur átt sér stað sem hefur skilað ríkinu rúmlega 141 milljarði króna á verðlagi dagsins í dag. Fé, sem áður var bundið í rekstri fyrirtækja, hefur verið notað til greiðslu skulda og ýmissa annarra samfélagslegra verkefna. Nú síðast var Landssími Íslands seldur fyrir tæplega 67 milljarða. Það er óumdeilt að sala bankanna og vöxtur þeirra eigi hvað stærstan þátt í öflugri markaðssókn íslenskra fyrirtækja á erlenda grund," að sögn forsætisráðherra.
Tryggja þarf stöðugleika
Halldór segir að mikilvægt að áfram sé unnið að því uppbyggingarstarfi sem hér hefur verið í gangi á undanförnum áratug.
"Við þurfum í fyrsta lagi að tryggja hér áframhaldandi stöðugleika í efnahagsmálum því það er sá grunnur sem við þurfum á að halda. Hér sé ég fyrir mér og finnst sjálfgefið að við sjáum áframhaldandi uppbyggingu þjónustusamfélagsins og margvíslegra hátæknigreina. Ég tel að í þessum greinum sé vaxtarbroddur framtíðarinnar sem þarf að hlúa að.
Þetta þýðir ekki að uppbygging í hefðbundnum framleiðslugreinum stöðvist þótt hlutfallslegt vægi þeirra verði minna. Við hljótum að auka framleiðslu mat- og iðnaðarvara sem hagkvæmt er að framleiða hér á landi. Auðlindir hafsins verða áfram mikilvægur þáttur í okkar efnahagslífi og menn sjá margvíslega möguleika að auka framleiðslu með eldi ákveðinna tegunda eins og þorsks og lúðu" að sögn Halldórs.
Búrfellsvirkjun nánast afskrifuð
Heimurinn stendur frammi fyrir orkuskorti og verðmæti orkulinda okkar er því mikið, að sögn forsætisráðherra.
"Þar eru margvíslegir möguleikar, ekki aðeins í framleiðslu á áli. Þær miklu framkvæmdir sem nú eru í gangi vegna uppbyggingar á Reyðarfirði og Grundartanga eru þær umfangsmestu í sögu þjóðarinnar. Ýmsar hugmyndir eru uppi um frekari framkvæmdir sem of snemmt er að segja til um. Þar eru hins vegar tækifæri sem verður að nýta til að tryggja áframhaldandi hagvöxt. Ef samningar nást um orkuverð og annað þarf að dreifa þeim framkvæmdum þannig að þær hafi sem jákvæðust áhrif á aðra atvinnustarfsemi og efnahagslífið í heild.
Varðandi arðsemi virkjana er rétt að hafa það í huga að Búrfellsvirkjun er nánast afskrifuð til fulls eftir 40 ár en er í betra ástandi en þá. Eigendur Landsvirkjunar hafa lagt rúmlega 1 milljarð króna í fjármagni á verðlagi í dag inn í fyrirtækið en eigið fé er yfir 50 milljarðar króna. Þetta segir ákveðna sögu um arðsemi slíkra framkvæmda hér á landi.
Það má ekki líta á framleiðslu- og þjónustugreinar sem tvo ósamrýmanlega kosti enda hafa mörg af öflugustu hátæknifyrirtækjum landsins byggst upp sem þjónustufyrirtæki fyrir framleiðslugreinar eins og sjávarútveginn. Við þurfum hins vegar að búa þannig um hnútana að rekstrarskilyrði allra þessara atvinnugreina séu sem stöðugust og hagstæðust hverju sinni. Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að hátt gengi íslensku krónunnar að undanförnu stafar aðeins að litlu leyti af stóriðjuframkvæmdunum. Stórfelld útlánaaukning bankanna og mikil skuldabréfakaup erlendra aðila hér á landi eiga mun meiri þátt í þessari þróun" að sögn Halldórs.
Sérhæfð þjónusta meðal helstu vaxtarbroddanna
Halldór segist vera þeirrar skoðunar að sérhæfð þjónusta við íslensku alþjóðafyrirtækin, ef svo mætti kalla þau, og fjármálaþjónusta við alþjóðleg fyrirtæki, sem hér kynnu að vilja hafa aðsetur, geti orðið meðal helstu vaxtarbrodda atvinnulífsins í framtíðinni ef rétt er haldið á málum.
"Slík þróun yrði til þess að hamla gegn atgervisflótta frá landinu og skapa ný og verðmæt störf og um leið mynda eftirsóknarvert samfélag hæfileikafólks á Íslandi. Að mínu viti þurfa stjórnvöld og atvinnulíf að sameinast um það metnaðarfulla verkefni að koma fjármálaþjónustu hér á landi á svipað þróunarstig og best gerist annars staðar, í löndum eins og Bretlandi, Hollandi, Írlandi, Lúxemborg og Sviss.
Ég sé fyrir mér að árið 2015 gæti Ísland verið orðin alþjóðleg fjármálamiðstöð. Ég tel að hér geti öll skilyrði verið fyrir hendi. Sum koma frá náttúrunnar hendi eins og lega landsins, sem tengir mikilvæg markaðssvæði í vestri og austri. Hér er hátt menntunarstig og reglur um banka- og fjármálastarfsemi eru að evrópskri fyrirmynd og almennt í góðu horfi. Hið sama á við um alla grundvallarinnviði samfélagsins.
Til að þessi framtíðarsýn geti orðið að veruleika þarf hins vegar að hlúa enn frekar að nokkrum málaflokkum. Þótt skattaumhverfi hér sé tiltölulega hagstætt rekstri fyrirtækja má ýmislegt enn betur fara, bæði sem varðar innlend fyrirtæki, eins og afnám stimpilgjalds og vörugjalda sem skekkir samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum fyrirtækjum. Eins þyrftu að koma til frekari skattalegar aðgerðir til að laða að erlenda fjárfesta í takt við það sem hefur verið að gerast í mörgum af okkar nágrannaríkjum sem einnig eru að keppa við okkur um að laða til sín erlenda fjárfesta. Þá yrði að bæta enn frekar tengingar og fjarskipti við útlönd. Að lokum yrðu viðhorf stjórnmálamanna og embættismanna að breytast og ráðuneyti og undirstofnanir þeirra þurfa skýr fyrirmæli um að atvinnulífið skuli fá góða og hraða þjónustu, á sama tíma og skilvirkt eftirlit með því er bætt," að því er fram kom í erindi forsætisráðherra á Viðskiptaþingi 2006.