Ísland verði alþjóðleg miðstöð fjármála og þjónustu

Stórveldi framtíðarinnar eru stórveldi hugans." Þessi orð Winstons Churchills, sem hann lét falla í Harvard-háskóla árið 1943, hefur Viðskiptaráð Íslands gert að einkunnarorðum sínum í nýrri skýrslu framtíðarhóps ráðsins þar sem reynt er að svara spurningunni Hvernig á Ísland að vera árið 2015? Framtíðarhópnum, sem samanstendur af fjölmörgum forystumönnum úr íslensku viðskiptalífi, háskólum og menningarstofnunum, virðist ekkert óviðkomandi og fjallar um menntamál jafnt sem atvinnumál og heilbrigðismál. Þá er rík áhersla einnig lögð á viðskiptalífið og hvernig búa megi þannig um hnútana að það dafni enn frekar. Hugmyndavinna hópsins fór fram undir stjórn Þórs Sigfússonar, forstjóra Sjóvár, og fundum framtíðarnefndar stýrði dr. Guðfinna S. Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík.

Huga þarf að framtíðinni í tíma

Í inngangi skýrslu framtíðarhópsins segir að ekki sé sjálfgefið að sú bylting sem átt hefur sér stað á flestum sviðum íslensks samfélags haldi áfram. Því þurfi að huga að framtíðinni í tíma og setja fram metnaðarfull markmið. "Góð varða á þeirri vegferð er að breyta Íslandi ársins 2015 í þjónustusamfélag af ýmsum toga, hvort sem litið er til iðngreina, fjármálaþjónustu, heilbrigðismála eða menntamála."

Fjölmörg markmið eru sett fram í skýrslunni, m.a. að gera Ísland að samkeppnishæfasta landi heims og að landið verði frjálsasta þjóð í heimi árið 2015. Þá segir að mikilvægt sé að stjórnvöld eyði óvissu um frekari stóriðjuframkvæmdir á næstu árum. Ef af þeim verði sé ljóst að gengi krónunnar muni áfram haldast sterkt. Meta þurfi heildstætt áhrif stóriðjuframkvæmda á útflutningsgreinar og samþætta þurfi sjónarmið beggja aðila.

Til framtíðar er nauðsynlegt að mati ráðsins að meira samræmi verði í aðgerðum ríkisvalds og Seðlabankans á þann veg að hið opinbera dragi verulega úr umsvifum sínum. Framtíðarstöðugleiki í efnahagsmálum velti á þessu samspili.

Meðbyr viðskiptalífsins nýttur

Á fundum framtíðarhópsins kom fram sá vilji að nýta þann mikla meðbyr sem íslenskt viðskiptalíf hefur um þessar mundir og leita allra leiða til að markaðssetja Ísland sem alþjóðlega miðstöð fjármála og þjónustu. Að sama skapi verði áfram skapaðar blómlegar aðstæður fyrir alþjóðleg fyrirtæki, sem hafi hér höfuðstöðvar vegna ákjósanlegra skilyrða af hálfu stjórnvalda, vegna þess mannauðs sem í landinu býr og vegna mikils og góðs stöðugleika.

Fram kemur í skýrslunni að mikilvægt sé að koma í veg fyrir tæknilegar hindranir á fjárfestingum erlendra aðila á Íslandi, sér í lagi vegna misbresta í skattalöggjöfinni. Skattkerfið þurfi að vera í stöðugri mótun og svara breyttum áherslum atvinnulífs ekki síður en almennings.

Rökin fyrir aukinni fjárfestingu útlendinga í íslensku efnahagslífi hérlendis eru m.a. þau, að mati Viðskiptaráðs, að næsta skref erlendrar útrásar íslenskra fyrirtækja verður ekki tekið nema opnað verði fyrir fjárfestingar útlendinga hér á landi.

"Ástæðan er sú að útrás fyrirtækja gengur ekki aðeins út á að íslensk fyrirtæki kaupi erlend, heldur þurfa útlendingar að geta orðið hluthafar í íslenskum fyrirtækjum í gegnum samruna," segir í skýrslunni.

Menntun og fjölskylda

Í skýrslu framtíðarhópsins er sérstaklega fjallað um aðstæður fjölskyldunnar og umhverfi menntunar í landinu. Lagt er til að miðstýring í skólakerfinu verði minnkuð, að leikskólar verði stækkaðir svo að þeir verði hagkvæmari rekstrareiningar og að bein kostnaðarþátttaka foreldra og nemenda í skólum landsins verði aukin. Þá er brýnt að mati Viðskiptaráðs að fjölga þeim sem sækja um framhaldsmenntun erlendis.

Viðskiptaráð segir mikilvægt að íslenskt atvinnulíf taki vel á móti þeim hugmyndum sem upp koma um alþjóðlega skóla. Slíkir skólar eru eðli málsins samkvæmt dýrir, nemendur gjarnan mun færri en almennt gerist. Með stuðningi atvinnulífsins mætti gera alþjóðlegan skóla að raunhæfum kosti, einnig fyrir Íslendinga. Allar hugmyndir sem miða að því að fá vel menntaða sérfræðinga af erlendu bergi brotnu til starfa á Íslandi byggja á því að börn þeirra geti stundað nám í alþjóðlegum skólum á öllum menntastigum.

Greitt verði fyrir menntun

Hjá framtíðarhópnum kom fram sameiginlegur skilningur á þeim auði sem menntunin er. Viðskiptaráð telur því eðlilegt að þeir sem þann auð öðlist greiði fyrir það með einhverjum hætti. Því megi heldur ekki gleyma að kröfur til menntastofnana aukist sífellt og kostnaðurinn þar með. Hófleg skólagjöld eru eðlilegt framhald þeirrar þróunar, segir í skýrslunni.

Fjallað er sérstaklega um málefni aldraðra í skýrslunni og meðal þess sem fram kemur er að tryggja þurfi öldruðum þá virðingu og frelsi sem þeir eigi skilið og þeim verði gert kleift að vera eins lengi heima og þeir kjósa og mögulegt sé. Mikilvægt sé að búa öldruðum gott öryggisnet í formi heilbrigðisþjónustu og þeirrar félagslegu aðstoðar sem þörf sé á til þess að aldraðir geti búið einir og sjálfstæðir eins lengi og þeir treysta sér til. Viðskiptaráð telur að athuga eigi samþættingu þeirrar þjónustu sem heilsugæslan annars vegar veitir öldruðum og félagsþjónustan hins vegar og þá jafnvel að einkaaðilar taki hana að sér að hluta eða í heild í formi þjónustusamninga. Bent er á að í úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, komi fram að hvert hjúkrunarrými kostaði 12.500 krónur á dag, meðan þrjár vitjanir í heimaþjónustu kostuðu 8.000 krónur. Hægt er því að ná fram umtalsverðri hagræðingu með því að efla heimaþjónustu í stað þess að fjölga hjúkrunarrýmum, segir Viðskiptaráð.

Möguleikar lífeyrissjóðanna eru Viðskiptaráði hugleiknir í skýrslunni og þar lagt til að frelsi þeirra til fjárfestinga verði aukið. Fjallað er um styrka stöðu íslenska lífeyriskerfisins og fram kemur að íslenska þjóðin eigi meira en 1,1 billjón króna í lífeyriskerfinu - sem jafngildi um 120% af vergri landsframleiðslu. Spár geri ráð fyrir að eignir sjóðanna eigi eftir að tvöfaldast á næstu tíu árum miðað við ávöxtun síðustu ára.

Ríkið og einstaklingurinn

Síðasti kafli skýrslunnar ber yfirskriftina Ríkið og einstaklingurinn og er þar m.a. fjallað um umfang hins opinbera og hvernig draga megi úr því. Er m.a. lagt til að einkaaðilum verði treyst í auknum mæli til að reka heilbrigðisstofnanir og að Ísland verði kynnt sem land heilbrigðis. Þá er lagt til að einkaaðilar taki við fleiri þáttum almannatryggingakerfisins, t.d. lífeyrissjóðirnir. Viðskiptaráð vill að einkaaðilar byggi, fjármagni og reki fleiri samgöngumannvirki og að ríkið hætti að stunda samkeppni við bankana um fjármögnun íbúðarhúsnæðis. Þá vill ráðið að tollar og landbúnaðarstyrkir verði afnumdir, ráðuneytum verði fækkað úr 14 í jafnvel sjö og að ríkisstofnunum, sem séu í dag ríflega 1.000 talsins, verði fækkað án þess að það valdi auknum kostnaði.

Viðskiptaráð Íslands vill beita sér fyrir því að í ár fari fram umræða á ýmsum sviðum þjóðlífsins um langtímastefnumótun fyrir Ísland. Með það að leiðarljósi hefur ráðið því skipulagt fundi með fyrirtækjum, stofnunum, aðilum úr menningarlífinu og háskólum til að skapa margháttaða umræðu um Ísland árið 2015. Skýrsla ráðsins er innlegg í slíka umræðu.

sunna@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka