Nauðgun og nekt til að auglýsa tónleika

Tónleikar á vegum Hins hússins sem fram fara í kvöld eru m.a. auglýstir með orðunum RAPE TIME! eða TÍMI TIL AÐ NAUÐGA! eins og það útleggst á íslensku um alla borg. Á veggspjaldi sem hangir víða um bæinn segir m.a. að kynæsandi leynigestur frá Þýskalandi sé væntanlegur og neðst á auglýsingunni stendur m.a. "naktir líkamar". Verið er að auglýsa hipp hopp-tónleika sem ætlaðir eru unglingum eldri en sextán ára. Þrjár hljómsveitir eru auglýstar og sagðar frá Þýskalandi og Japan en eftirgrennslan hefur leitt í ljós að um tæplega tvítuga Íslendinga er að ræða.

Segjast vera að nota viðurkenndar aðferðir

"Ég trúi vel að þetta fari fyrir brjóstið á fólki og ég viðurkenni að það hafi verið mistök að leyfa þeim að gera þessa auglýsingu," segir Ása Hauksdóttir, deildarstjóri menningarmála hjá Hinu húsinu. "Ég ræddi þetta mikið við strákana og þeirra rök eru þau að þarna séu þeir að nota aðferðir sem séu viðurkenndar í poppheiminum, að sjokkera fólk til að ná athygli. Þeir virðast hafa náð því."

Ása segist hafa rætt við strákana um að þeir þyrftu að taka þá umræðu sem auglýsingin gæti hrundið af stað. "En ég velti því fyrir mér þegar þeir sýndu mér plakatið hvort við ættum að vera að ritskoða hluti hjá nítján ára gömlu fólki. Það er alltaf spurning um hvar eigi að draga mörkin. En ég tel að þeir þurfi að axla ábyrgðina á því sem um er að ræða."

Ása segir að ef umræða fari af stað um auglýsinguna voni hún að fjallað verði um hvers vegna ungu fólki finnist eðlilegt að auglýsa með þessum hætti. "Þetta endurspeglar samfélagið eins og það er. Svona er hipp hopp-tónlist og -menning markaðssett."

Ása segir að líklega geti auglýsingin haft áhrif á hina góðu ímynd Hins hússins. Hún bendir á að mjög mikið og gott starf með ungu fólki fari þar fram en fái því miður ekki alltaf verðskuldaða athygli. Því sé sorglegt, að þegar svona mál komi upp, séu þau tekin til umfjöllunar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert