Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að við fjárlagagerð fyrir árið 2007 yrði gert ráð fyrir að styðja við fjölskyldur sem ættleiða börn erlendis frá. Verður að öllum líkindum miðað við þá styrki sem veittir eru til slíks á Norðurlöndunum. Að jafnaði eru um tuttugu börn ættleidd erlendis frá af Íslendingum og kostnaður við hverja ættleiðingu liggur nærri einni milljón króna.
Ættleiðingar hafa ekki verið styrktar af íslenska ríkinu til þessa en á hinum Norðurlöndunum nema styrkir um 200-500 þúsund krónum á hverja ættleiðingu. Hugsanlega munu slíkar ættleiðingar verða til þess að fjölga ættleiðingum, en fyrir 2001 voru flest börnin ættleidd frá Indlandi. Á síðustu árum hafa þau flest verið frá Kína, samkvæmt upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu.