Mikil ánægja á Húsavík með ákvörðun Alcoa

Reinhard Reynisson, bæjarstjóri á Húsavík
Reinhard Reynisson, bæjarstjóri á Húsavík mbl.is/Kristján Kristjánsson

Reinhard Reynisson, bæjarstjóri á Húsavík, segir Húsvíkinga mjög ánægða með þá ákvörðun Alcoa að að hefja ítarlega könnun á hagkvæmni þess að reisa nýtt, 250.000 tonna álver á Bakka við Húsavík. Enda mun, ef af byggingu álvers verður, álver hafa gríðarleg áhrif á allt athafnalíf á Húsavík og nágrenni.

„Jafnvel sú ákvörðun að kanna hagkvæmni þess að reisa álver hefur nú þegar mikil áhrif og styrkir trú allra á framtíð svæðisins. Það er hins vegar mjög mikilvægt að það er búið að ljúka þeim hluta að ákveða staðarval á Norðurlandi. Nú liggur staðarákvörðunin fyrir og þá getum við einbeitt okkur að því að fást við þetta verkefni," segir Reinhard.

Verði af byggingu þess mun álverið nota rafmagn sem að mestu verður framleitt með vistvænni jarðvarmaorku. Segir Reinhard að sú jarðvarmaorka muni aðallega koma frá Kröflusvæðinu, Bjarnarflagi og Þeistareykjum. En fleiri svæði séu til rannsóknar. Á þessum stöðum þarf að sögn Reinhards að fara af stað mikið undirbúningsferli. Nú þegar hafa Landsvirkun og Þeistareykir ehf. gert verksamning við Jarðboranir hf. um borun á þremur rannsóknarholum á Norðausturlandi.

Reinhard segir, að heilmikil stemming sé á Gamla Bauk þar sem fram fari álvaka sem minni á kosningavöku. Hann var hins vegar ekki á staðnum heldur á leiðinni til Akureyrar, þegar fréttavefur Morgunblaðsins náði tali af honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert