Niðurstaða Alcoa kemur ekki á óvart

Eftir Hjálmar Jónsson hjalmar@mbl.is
Gísli Gunnarsson, forseti sveitarstjórnar Skagafjarðar, sagði að Skagfirðingar hefðu alltaf vitað að niðurstaðan yrði um einn stað af þessum þremur fyrir val á álverinu og í sjálfu sér kæmi þeim ekki þessi niðurstaða Alcoa á óvart.

"Við óskum bara Húsvíkingum til hamingju en reiknum með að nú hljóti stjórnvöld að fara að skoða hvað á að gera á norðvestursvæðinu.

Það hljóta í framhaldi af þessu að fara að koma upp spurningar um það hvort það eigi að sitja alveg eftir," sagði Gísli.

Hann sagði að Skagfirðingar myndu nú einbeita sér að annarri atvinnuuppbyggingu og krefja stjórnvöld um svör þar að lútandi. Það væru nokkur ár síðan að Halldór Ásgrímsson hefði sagt að tími norðvestursvæðisins væri kominn. "Við munum sennilega banka upp á með það," sagði Gísli enn fremur.

Brosi gegnum tárin

Ársæll Guðmundsson, sveitarstjóri í Skagafirði, sem einnig er oddviti vinstri grænna í sveitarfélaginu, en þeir voru andvígir því að Skagafjörður kæmi til greina hvað staðarvalið snertir, sagði að niðurstaðan kæmi sér ekki á óvart og hefði verið honum lengi ljós.

Hann sagðist alltaf hafa gert verulegar athugasemdir við drög að þessari aðgerðaáætlun, meðal annars við það atriði að orkan yrði tekin hvaðan sem væri af svæðinu til þess staðar sem yrði fyrir valinu. Að hans mati hefði Skagafjörður verið þarna inni til þess að gera auðveldara um vik að komast í orku Héraðsvatna. "Meirihluti Skagfirðinga vill ekki álver eða virkjun Héraðsvatna eins og ítrekað hefur komið fram í skoðanakönnunum," sagði Ársæll.

Hann sagði að vinstri grænir hefðu lagt mikla áherslu á að fara aðrar leiðir í atvinnumálum. Þar væru þeir að horfa til hátækniiðnaðar sem nágrannalönd okkar á Norðurlöndunum hefðu lagt áherslu á. "Ég brosi í gegnum tárin bara," sagði Ársæll ennfremur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert