Maður lést í sprengingu við Kárahnjúka

Slysið varð í aðgöngum við Desjarárstíflu.
Slysið varð í aðgöngum við Desjarárstíflu. mbl.is/Steinunn

Maður lést í sprengingu í morgun í aðgöngum 4 við Desjarárstíflu á Kárahnjúkasvæðinu. Óskar Bjartmars yfirlögregluþjónn á Egilsstöðum sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að tilkynning um slysið hafi borist lögreglu klukkan hálf sex í morgun og að verið væri að vinna að rannsókn málsins. Maðurinn var 26 ára Íslendingur sem starfaði við sprengivinnu á vegum Arnarfells sem starfar fyrir Landsvirkjun.

Maðurinn sem lést var að vinna við sprengivinnu í aðgöngum 4 sem eru neðan við Desjarárstíflu að austanverðu, nálægt Hálslóni, milli stíflunnar og yfirfallsskurðar lónsins. Að sögn lögreglu var maðurinn úrskurðaður látinn á staðnum af læknum sem eru staðsettir í vinnubúðum virkjunarinnar.

Sigurður Arnalds kynningarstjóri Kárahnjúkavirkjunar hjá Landsvirkjun sagði að maðurinn sem lést hafi verið að setja sprengihleðslur í til þess gerðar borholur innst í göngunum þegar ein hleðslan sprakk nærri honum og varð hann undir grjóthruni af völdum sprengingarinnar.

Ekki er vitað til þess að aðrir starfsmenn hafi orðið fyrir meiðslum.

„Við viljum votta aðstandendum unga mannsins samúð okkar," sagði Sigurður. „Það kemur okkur afskaplega mikið á óvart að þetta skuli geta gerst, það er mjög öflugt öryggiseftirlit með þessari virkjun og kannski meira en nokkurn tímann hefur verið og því er þetta reiðarslag," sagði Sigurður. Hann sagði jafnframt að sprengiefnasérfræðingur Vinnueftirlits ríkisins væri á leiðinni á slysstað til að rannsaka tildrög slyssins.

Maðurinn sem lést var að vinna sprengivinnu í aðgöngum 4 …
Maðurinn sem lést var að vinna sprengivinnu í aðgöngum 4 við Desjarárstíflu. Heimild: Landsvirkjun
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert