Slökkviliðið í Borgarnesi hefur frá því í um níuleytið morgun barist við sinuelda sem loga nú á um 60-70 ferkílómetra svæði á Mýrum í Hraunhreppi. Slökkviliðið reynir nú að verja húseignir á svæðinu. Bjarni Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarnesi, líkti ástandinu við náttúruhamfarir þegar Fréttavefur Morgunblaðsins hafði samband við hann um hálffimmleytið nú síðdegis.
Bjarni segir lítið hægt að gera til að slökkva eldinn og hann hafi ekki séð annan eins sinueld á þann þriðja tug ára sem hann hefði starfað í slökkviliðinu. Eldveggurinn sé á annan metra og íbúar á Akranesi hafi hringt í slökkvilið og spurt hvað í ósköpunum væri að gerast, þar sem eldurinn sæist alla leið þangað. Bjarni segir að það kæmi ekki á óvart þó Reykvíkingar sæu hann líka.
Dælupíll og tankbíll eru nú á svæðinu en mikill vindur breiðir eldinn hratt út. Bjarni segir fátt annað en vegi og skurði með vatni í geta stöðvað eldinn nú.