Bjarni Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarnesi, segir sínum mönnum hafa tekist að hindra að eldur kæmist í tvö íbúðarhús í Skíðsholtum í Hraunhreppi en eldveggurinn er nú um tveggja til þriggja metra hár og óvíst hversu margir tugir ferkílómetra hafa brunnið í sinueldunum sem geisa í hreppnum.
Eins og fyrr var frá greint á Fréttavef Morgunblaðsins var tilkynnt um sinubrunann kl. 9 í morgun. Bjarni segir nú sjást í Snæfellsnesfjallgarðinn en allt sé mikið til brunnið frá veginum að Fíflholtum niður í Akra. Slökkviliðið sé nú statt í Skíðsholtum en eldurinn sé ekki nærri neinum mannabústað eins og er.
Bjarni segist vonast til þess að eldurinn stoppi nærri þeim vegum þar sem mikið rof hefur verið og enginn gróður geti brunnið á.