Eldurinn slapp yfir Sauraveg og hefur ný hætta skapast

Eldurinn hefur komist yfir Sauraveg og er hvað mestur við …
Eldurinn hefur komist yfir Sauraveg og er hvað mestur við Hamra. mbl.is

Tvö slökkvilið voru kölluð út aftur fyrir skömmu vegna sinuelda á Mýrum eftir að vindátt breyttist og vindur jókst. Við það fór eldur yfir Sauraveg sem búið var að bleyta í nótt. „Vatnið fraus á veginum í nótt en þiðnar nú þegar eldurinn færist nær veginum og hefur hann farið yfir veginn í fláa eða landsvæði sem er um 30 ferkílómetra stórt og á því svæði eru fjórir bóndabæir," sagði Theódór Þórðarson, yfirlögregluþjónn í Borgarnesi, í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Theódór sagði að lögreglan hefði vaktað veginn í nótt, en að þetta væri seinfarinn vegur og að fyrir skömmu hefði lögreglan komist að því að eldurinn væri kominn yfir veginn.

Nú er slökkvilið Borgarness og Borgarfjarðarsveitar, sem er staðsett á Hvanneyri, auk bænda með sínar haugsugudælur, á leið til að vernda ræktað land og bæina sem eru innan þessa landsvæðis, en það eru bæirnir Brúarland, Arnarstapi, Ánastaðir og Hrafnkelsstaðir.

Fréttavefur Morgunblaðsins náði tali af Brynjúlfi Guðbrandssyni, bónda á Brúarlandi, sem var hjá Saurum þar sem logaði, en þar var eldurinn þó ekki kominn yfir veginn. Hann sagðist vera á leið að Hömrum með 9 þúsund lítra af vatni í haugsugunni sinni til að aðstoða við baráttuna við eldinn þar sem hann er hvað mestur þar. „Það rýkur vel úr þessu hérna á Saurum, en sumarbústaðurinn sem er hérna er ekki kominn í hættu enn sem komið er," sagði Brynjólfur. „Það er alveg bölvað ef þetta fer suður flóann," sagði Brynjúlfur er hann var spurður hvort ræktað land og bæir væru komnir í hættu.

Ólafur Egilsson, bóndi á Hundastapa, sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að hann hefði aldrei séð jafnmikinn sinubruna á svæðinu, en heyrt að svipaður eldur hafi geisað á sama árstíma 1959. „Þá fór eldurinn með neistaflugi yfir ísilagða Álftána," sagði Ólafur sem hóf búskap á Hundastapa 1974.

Nýtt kapp er hlaupið í sinubrunann eftir að vindátt snérist …
Nýtt kapp er hlaupið í sinubrunann eftir að vindátt snérist . Ásdís Haraldsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert