Sinueldar geisa enn á Mýrum og sagði lögreglan í Borgarnesi að þeir hefðu haft vakandi auga á eldinum í alla nótt og að ennþá logaði glatt. Eldurinn er á mjög stóru svæði en er hvergi nærri þjóðveginum. „Einstaka bæir hafa verið í gjörgæslu," sagði lögreglumaður á vakt í Borgarnesi. Slökkvilið Borgarness hefði marga bíla á svæðinu og hefði fengið lánaða tankbíla hjá fyrirtækjum í Borgarnesi því mikið vatn þyrfti til að verja ræktað land og mannvirki. „Bændur nota einnig haugsugur sínar til að dæla vatni," sagði lögreglan í Borgarnesi.