Hátt á annað hundrað björgunarmenn tóku þátt í leitinni að manninum, sem hafði ásamt félaga sínum verið á vélsleða í dalnum þegar flóðið skall á. Félagi mannsins slapp undan flóðinu og gat látið vita. Hann fór til móts við fyrstu björgunarmennina sem voru komnir á svæðið innan við klukkustund eftir að flóðið féll.
Allar björgunarsveitir á Austurlandi voru kallaðar út og sendar á svæðið til leitar en björgunarmaður með leitarhund hafði upp á manninum þegar hann hafði legið í snjónum í tæplega tvær og hálfa klukkustund. Hann var þá meðvitundarlaus og á kafi í snjó.
Jón Gunnarsson, framkvæmdastjóri Landsbjargar, segir að alls hafi um 85 björgunarsveitarmenn verið á svæðinu og 80 til viðbótar verið kallaðir út, þar á meðal frá höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Þingeyjarsýslu og Eyjafirði. Fjórir leitarhundar voru notaðir og segir Jón ljóst að þeir hafi skipt miklu máli og að án þeirra hefði tekið mun lengri tíma að finna manninn.
Viðbúnaður var hjá Landhelgisgæslunni og áhöfn TF-SIF var kölluð út kl. 18.44 og óskað eftir því að hún kæmi á staðinn. Hins vegar mat áhöfn þyrlunnar ástandið þannig að þyrlan myndi ekki nýtast í verkefnið vegna myrkurs en nætursjónaukabúnaður þyrlunnar hefur ekki verið vottaður.
Þyrlan var því afturkölluð en þyrla varnarliðsins kölluð út og var í þann mund að fara í loftið þegar tilkynning barst um að maðurinn hefði fundist. Þá var samhæfingarstöð Almannavarna virkjuð og fulltrúi Landhelgisgæslunnar var þar meðan á aðgerðum stóð.
Hinn látni var á þrítugsaldri. Ekki er unnt að greina frá nafni hans að svo stöddu.