Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra, fór vestur á Mýrar í gær og skoðaði afleiðingar sinubrunans mikla ásamt forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands, sérfræðingum stofnunarinnar og fulltrúum heimamanna. Landsvæðið sem brann er alls um 67 ferkílómetrar, sem er álíka stórt svæði og allt höfuðborgarsvæðið.
Auk þess að fara skoðunarferð um brunasvæðið ræddi ráðherra við fulltrúa Borgarbyggðar um áhrif stórfelldra sinuelda og stjórn og skipulag slökkvistarfsins og þær rannsóknir sem framundan eru.
Í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu er haft eftir Sigríði Önnu, að svæðið sem brann væri mun stærra en hún hafði gert sér grein fyrir eftir að skoða myndir og kort og heyra tölur. Þrátt fyrir þetta sé athyglisvert hve mikið þrekvirki hafi verið unnið við slökkvistarf.
Þá segir hún greinilegt, að miklar skemmdir hafi orðið á gróðri, en hann hafi þó farið misjafnlega illa út úr brunanum. Sums staðar megi búast við að gróðurfar verði svipað og var fyrir brunann en annars staðar verði að gera ráð fyrir miklum breytingum á gróðurfari og öðru lífríki. Sá gróður sem hafi farið sérstaklega illa út úr eldinum sé fjalldrapi og bláberjalyng. Ánægjulegt hafi þó verið að sjá, að þrátt fyrir að allt væri meira og minna svart á svæðinu var þar nokkuð af fugli, til að mynda bæði gæsir, álftir og rjúpur en litlar upplýsingar sé til hér á landi um áhrif sinubruna á fuglalíf og þarf að leita til Skotlands til að finna rannsóknir á því. „Ég tel mikilvægt að við drögum lærdóm af þessum bruna og hef þess vegna sent Brunamálastofnun beiðni um að fjalla um aðgerðir til að draga úr hættu vegna slíkra bruna. Það er einnig mikilvægt að koma skilaboðum til almennings um það hve meðferð elds í náttúrunni getur verið hættuleg og hversu gífurlegt tjón og stundum óbætanlegt getur hlotist af ef fólk gleymir sér augnablik,“ segir Sigríður Anna í tilkynningunni.
Hún hefur þegar falið Náttúrufræðistofnun Íslands að rannsaka áhrif eldanna á lífríkið og mun stofnunin fylgist náið með framvindu gróðurs og dýrlífs á svæðinu á næstu árum.