Regína Thorarensen andaðist á hjúkrunarheimilinu Hulduhlíð á Eskifirði 22. apríl sl.
Regína fæddist á Stuðlum í Reyðarfirði 29. apríl 1917. Foreldrar hennar voru Emil Tómasson, bóndi á Stuðlum, og kona hans Hildur Þuríður Bóasdóttir.
Regína giftist Karli F. Thorarensen járnsmíðameistara hinn 24. ágúst 1939. Þau bjuggu í Skerjafirði á árunum 1939-1942, í Djúpuvík 1942-1947, á Gjögri 1947-1962, Eskifirði 1962-1981 og á Selfossi frá 1981 þar til Karl lést hinn 28. febrúar1996. Síðan hefur Regína búið í Hulduhlíð, dvalarheimili aldraðra á Eskifirði. Regína og Karl áttu fjögur börn, Hilmar Friðrik, Guðbjörgu Karólínu, Guðrúnu Emilíu og Emil.
Regína byrjaði að skrifa greinar í Morgunblaðið um miðja síðustu öld þar sem hún gagnrýndi stjórnendur Kaupfélags Strandamanna fyrir lognmollu og undirlægjuhátt við Sambandið og stjórnendur Árneshrepps fyrir framtaksleysi í málefnum byggðarlagsins. Vöktu skrif Regínu strax verulega athygli og viðbrögð. Upp frá þessu var Regína mjög virk í þjóðmálaumræðunni, bæði með skrifum sínum og þátttöku í fundum.
Regína var fréttaritari Morgunblaðsins á Gjögri og Eskifirði frá 1954 til 1963 og Dagblaðsins og síðar DV á Eskifirði, Gjögri og Selfossi.
Á kveðjustund þakkar Morgunblaðið Regínu fyrir unnin störf og sendir aðstandendum hennar samúðarkveðjur.