Fékk 10 þúsund í laun á mánuði

„Við byrjuðum á því klukkan sex á morgnana að bera út blöðin,“ segir Xing Haiou, kínverskur nuddari sem ráðinn var á nuddstofu á Íslandi fyrir tíu þúsund krónur á mánuði og látinn vinna myrkranna á milli. „Síðan var nuddað allan daginn og hætt í fyrsta lagi klukkan átta á kvöldin.“

Þá tók við að þrífa nuddstofuna og þvo þvotta. „Það var líka nuddað um helgar og þegar kom dauður tími vorum við látnir bera út auglýsingapóst fyrir stofuna, en það var einkum á sunnudögum.“ Haiou vann í eitt og hálft ár á stofunni og voru honum í byrjun þessa árs dæmd vangoldin laun að fjárhæð tæpar 5 milljónir, auk dráttarvaxta, í Héraðsdómi Reykjaness.

„Við fórum sáralítið úr húsi, það var ekki tími til þess, þannig að okkur leið eins og við værum í fangelsi. Síðan var haft í hótunum við okkur til að hafa okkur góða.“

Þrír kínverskir nuddarar stofunnar leituðu liðsinnis Alþjóðahússins og varð úr að þeir struku frá vinnuveitanda sínum að kvöldlagi, þó ekki án þess að þrífa stofuna fyrst.

Að sögn Sæunnar Stefánsdóttur, aðstoðarmanns félagsmálaráðherra, eru alvarleg brot á rétti innflytjenda á borð við þau sem Xing Haiou mátti þola fátíð hér á landi. En hún segir þó dæmi þess að tilraunir séu gerðar til að brjóta kjarasamninga.

„Við líðum auðvitað ekki að svona sé farið með fólk,“ segir hún. „Þegar við setjum reglur ætlumst við til að farið sé eftir þeim.“

Rætt er við Xing Haiou í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert