Varðskipið Ægir kom í veg fyrir að sjóræningjaskip keypti olíu

Fiskiskipið Dolphin á leið í átt að olíuskipinu. Það fékk …
Fiskiskipið Dolphin á leið í átt að olíuskipinu. Það fékk ekki afgreiðslu. mynd/Halldór Nellett

Ægir, varðskip Landhelgisgæslunnar, hindraði nýverið að olíuskip seldi svonefndu sjóræningjaskipi á Reykjaneshrygg olíu. Skipherra varðskipsins kallaði upp skipstjóra olíuskipsins og var honum gerð grein fyrir því að á svæðinu væru nokkur skip að veiðum án kvóta og þau væru á svarta listanum hjá NEAFC, Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins.

Skipstjóranum var jafnframt tilkynnt að ef hann seldi slíku skipi olíu myndi skip hans einnig lenda á svarta listanum því bannað væri að veita þessum skipum þjónustu. Það gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir skipið og útgerð þess.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslinni virtist skipstjóri olíuskipsins ekki vita að skipin hefðu verið að veiðum á svæðinu án kvóta. Nöfn allra þeirra skipa voru síðan lesin fyrir skipstjóra olíuskipsins og sagðist hann ætla að ráðfæra sig við útgerðina. Frá þessu segir í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Næstu daga fylgdist varðskipið grannt með ferðum olíuskipsins og kom í ljós að það átti eingöngu viðskipti við lögleg skip á svæðinu. Þremur dögum seinna sást olíuskipið stefna til suðausturs á fullri ferð. Skipherra varðskipsins hafði samband við skipstjóra olíuskipsins og sagði hann að eigendur olíuskipsins hefðu tekið ákvörðun um að afgreiða ekki sjóræningjaskipin.

Í tilkynningunni segir að svokallaðir sjóræningjar hafi verið að veiðum á úthafskarfaslóð við lögsögumörkin á Reykjaneshrygg, en þar séu þeir að veiða án kvóta og leyfis NEAFC, sem fer með fiskveiðistjórn á svæðinu. Landhelgisgæslan framfylgi skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt aðildarsamningi Íslands að ráðinu til að fara með eftirlit á svæðinu.

„Varðskip Landhelgisgæslunnar og flugvélin Syn hafa aflað mikilvægra upplýsinga fyrir Norðaustur-Atlantshafsráðið í eftirlitsferðum um svæðið, m.a. náð ljósmyndum af brotum og gert skýrslur um athafnir sjóræningjaskipa. Þessi gögn eru síðan lögð til grundvallar þegar skip eru sett á svarta lista NEAFC. Landhelgisgæslan reynir eftir fremsta megni að hafa skip þarna á meðan á karfaveiðum stendur og hefur einnig eftirlit úr lofti. Fleiri þjóðir senda þangað eftirlitsskip og hafa þau góða samvinnu,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert