Valgerður kærir hótanir á mótmælaspjaldi

Frá mótmælafundi Íslandsvina sl. laugardag.
Frá mótmælafundi Íslandsvina sl. laugardag. mbl.is/Einar Falur

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, hefur sent lögreglustjóranum í Reykjavík bréf þar sem vakin er athygli á áletrun á mótmælaspjaldi, sem borið var í göngu samtakanna Íslandsvina í Reykjavík sl. laugardag. Á spjaldinu, sem myndir birtust af í fjölmiðlum, stóð: „Drekkjum Valgerði en ekki Íslandi".

Valgerður segir á heimasíðu sinni, að hún telji að með þessari áletrun hafi augljóslega verið ráðist gegn persónu hennar vegna starfa hennar í opinbera þágu sem iðnaðarráðherra og hefur því beðið lögregluna að rannsaka málið.

„Ég tel að með þessu hafi þeir sem í hlut áttu framið refsiverðan verknað, þar sem um hafi verið að ræða hótun um ofbeldi gegn mér sem opinberum starfsmanni vegna skyldustarfa minna, opinber hvatning til refsiverðra verka og að hótun um að fremja refsiverðan verknað sé til þess fallin að vekja hjá mér, dætrum mínum og fjölskyldu ótta um líf, heilbrigði eða velferð. Í bréfinu vísa ég til 106. gr., 121. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940," segir Valgerður á heimasíðu sinni.

Hún segir, að mynd af spjaldinu hafi birst Fréttablaðinu og einnig muni það hafa komið fram í fréttum NFS á laugardagskvöldið. „Það vekur athygli mína að þessi stóru orð skulu hafa birst í fjölmiðlum án þess að það hafi orðið sérstakt fréttaefni þegar mótmælendur hafa uppi svo alvarlegar hótanir í garð nafngreindra einstaklinga. Sú spurning virðist ekki hafa vaknað hvort allt sé orðið leyfilegt gagnvart ráðherrum eða öðrum, sem eru að vinna skyldustörf sín og framfylgja ákvörðun Alþingis eins og um er að ræða varðandi byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Þá framkvæmd samþykktu 44 þingmenn en 9 voru á móti. Orkufyrirtæki, sveitarfélög, álframleiðendur og fulltrúar starfsmanna þeirra hljóta að íhuga hvort þau þurfi ekki að taka frekari þátt í þeirri umræðu sem nú á sér stað um stöðu þessarar atvinnugreinar í landinu og framtíð hennar. Þetta er umhugsunarefni þó að aðalatriðið sé það að þeir sem bera ábyrgð á mótmælagöngunni s.l. laugardag urðu sér til skammar og hafa að mínu mati farið á svig við íslensk lög," segir Valgerður.

Heimasíða Valgerðar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert