Útvarpsstöð varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hætti í dag útsendingum sínum á miðbylgju eftir nær 55 ára starfsemi, en varnarliðið hóf tilraunaútsendingar á Keflavíkurflugvelli undir nafninu RADIO TFK með 25 vatta sendistyrk á miðbylgju í nóvembermánuði 1951.
Samkvæmt upplýsingum frá Upplýsingaskrifstofu varnarliðsins voru fordæmi fyrir útvarpssendingum breska og bandaríska hersliðsins hér á landi í síðari heimsstyrjöldinni er báðir leigðu sérstaka dagskrártíma fyrir menn sína í Ríkisútvarpinu. Þá var lítil útvarpsstöð starfrækt á Keflavíkurflugvelli í stríðslok. Var varnarliðinu veitt formlegt leyfi til reksturs 250 vatta útvarpsstöðvar allan sólarhringinn í maímánuði 1952 og varð þannig lögformlegur aðili að rekstri ljósvakamiðla á Íslandi.
Útvarpsstöðin flutti blöndu af vinsælli tónlist, fréttum, tilkynningum, fræðslu- og skemmtiefni sem unnið var af starfsmönnum stöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli eða útvarpi Bandaríkjahers, Armed Forces Radio Service, og sent út beint eða af plötum, segulböndum og um gervihnött líkt og í öðrum bækistöðvum Bandaríkjahers erlendis. Stöðin útvarpaði á 1484 kílóriðum til ársins 1975 er sendingin var færð á 1485 kílórið til samræmis við evrópskar útvarpssendingar, og ári síðar hófust FM steríósendingar um kapalkerfi. Útsenditíðninni var enn breytt í 1530 kílórið á tíunda áratugnum og hafin 50 vatta útsending á FM 104,1 árið 1994.
Auk eigin þáttagerðar flutti útvarpsstöðin gjarna flest það sem vinsælast var í bandarísku útvarpi líkt og tónlistarþætti Casey Kasem, American Top Forty, Charlie Tuna, Wolfman Jack, Gene Price, Roger Carroll, Jim Pewter, Don Tracy, Dick Clark, Humble Harve, Mary Turner, Tom Campbell, Carmen Dragon, Bill Stewart og Harry Newman, og fréttaþætti Pauls Harveys og Roberts. W. Morgans auk All Things Considered, og einnig þætti á borð við CBS Radio Mistery Theater og Golden Days of Radio.
Stöðin hóf sjónvarpsútsendingar á Keflavíkurflugvelli árið 1955 en þær sendingar voru færðar í kapalkerfi og litvæddar árið 1976. Á öndverðum níunda áratugnum bættust sjónvarps- og útvarpssendingar um gervihnött við kapalkerfið og urðu þar alls 40 sjónvarpsrásir og 11 útvarpsrásir.
Starfsmenn útvarps- og sjónvarpsstöðvar varnarliðsins voru að jafnaði um 25 talsins, þar af þrír íslenskir tæknimenn.