Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra um að karlmaður, sem grunaður er um að hafa klippt framan af fingri annars manns á Akureyri í síðustu, sæti gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhaldið rennur út á morgun en fram kemur í dómnum, að árásarmaðurinn á að hefja afplánun á morgun á 18 mánaða fangelsisdómi, sem hann hlaut í vor fyrir alvarlega líkamsárás.
Í úrskurði héraðsdóms er atburðum lýst þannig, að sakborningurinn hafi ásamt tveimur félögum sínum ruðst inn í íbúð á Akureyri og barið húsráðanda í andlitið með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði og hlaut aðra áverka á andlitsbeinum. Þeir þvinguðu hann með hótunum til að hringja í félaga sinn til að boða hann á sinn fund. Í því skyni að fá hann til að hringja hafi þeir misþyrmt syni húsráðandans og jafnfram hótað að klippa fingur af feðgunum með garðklippum ef þeir hlýddu ekki fyrirmælum þeirra. Sonurinn á kinnbeinsbrotnaði m.a. við þessar aðfarir.
Húsráðandinn hringdi í kunningja sinn sem kom á staðinn og var þá umsvifalaust barinn niður með hafnarboltakylfu og sparkað í hann og litli fingur vinstri handar var síðan klipptur af honum með runnaklippum.
Fram kemur að verið er að rannsaka sex aðrar kærur á hendur sakborningnum fyrir líkamsárásir og hótanir. Rannsókn hafi hins vegar dregist vegna þess hve vitni og árásaþolarnir óttist manninn og félaga hans.
Þá staðfesti Hæstiréttur í dag úrskurð héraðsdóms um að einn félagi mannsins, sem tók þátt í árásinni í síðustu viku, skuli afplána 30 daga eftirstöðvar dóms en hann var með árásinni talinn hafa brotið gegn skilyrðum reynslulausnar.