Öll ker í kerskála 3 tekin úr notkun

Búið er að taka öll ker í kerskála 3 í álverinu í Straumsvík úr rekstri, en slökkt var á síðustu kerunum í nótt. Fram hefur komið að 120 af 160 kerum hafi verið tekin úr rekstri og stóðu vonir til að hægt væri að bjarga að minnsta kosti hluta þeirra 40 sem eftir voru. Það tókst hinsvegar ekki. Þetta kemur fram á vef Alcan.

Það sem olli þessari miklu truflun var alvarleg bilun í rafbúnaði. Hún olli níu klukkustunda straumleysi í skálanum í gær. Straumleysið má rekja til bilunar í spennum í aðveitustöð en ekki er ljóst hvað olli þeirri bilun.

Bilunarinnar varð fyrst vart um kl. 00:20 aðfararnótt mánudags og ekki tókst að koma rafstraumi á skálann fyrr en rúmum níu tímum síðar. Vonir stóðu til að hægt væri að bjarga stórum hluta keranna, en eftir því sem leið á mánudaginn varð ljóst að slíku yrði ekki við komið. Ker og tengdur búnaður voru illa farin eftir straumleysið, auk þess sem aðstæður fyrir starfsfólk voru orðnar erfiðar, segir á vef Alcan.

Þá hefur komið fram að tjón vegna bilunarinnar sé mikið og muni hlaupa á hundruðum milljóna króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka