Skúta frönsku konunnar Servane Escoffier frá Saint Malo hefur forystu í siglingakeppninni frá Paimpol í Frakklandi til Íslands og baka. Er hún nú undan Írlandsströndum og hefur lagt fjórðung leiðarinnar, en í kvöld verða tveir sólarhringar frá því skúturnar 19 voru ræstar af stað í Paimpol. Áætlað er að þær komi til Reykjavíkur um og upp úr næstu helgi.
Ungfrú Escoffier er 24 ára og yngsti skútustjóri keppninnar og önnur tveggja skipherra af kvenkyni í keppninni. Tók hún forystu skömmu eftir að Tómas Ingi Olrich, sendiherra Íslands í Frakklandi, ræsti keppendur af stað klukkan 20 að staðartíma í fyrrakvöld, laugardag, klukkan 18 að íslenskum tíma. Hefur hún ekki látið hana af hendi eftir tæpa tvo sólarhringa í hafi.
Escoffier siglir skútunni Vedettes de Brehat. og er 17 sjómílum undan næstu skútu, Tchuda Popka annarri.
Escoffier er þrátt fyrir ungan aldur þekkt fyrir kappsiglingar. Sl. vetur varð hún í þriðja sæti í Transat-siglingunni, 4.340 sjómílna keppni frá Le Havre í Frakklandi til Salvador de Brehat, hinnar fornu höfuðborgar Brasilíu. Sigldi hún þá við annan mann skútunni sem vann þá keppni 2003 og einnig siglinguna eftir Rommleiðinni 2002.
Sömu skútu, Vedettes de Brehat, stýrir Escoffier nú í Skippers d’Islande keppninni og þar ætlar hún að uppfylla skilyrði til þátttöku í keppninni eftir Rommleiðinni í haust. Í því felst að hún verður að sigla ein síns liðs á bakaleiðinni, 1.300 sjómílur frá Grundarfirði til Paimpol.
Kappsiglingin eftir Rommleiðinni er rúmlega tvöfalt lengri og liggur frá Saint-Malo til Point-a-Pitre í Guadeloupe í Karíbahafi. Hátt í hundrað skútur hafa þegar uppfyllt skilyrði og tilkynnt þátttöku, en aðeins einn maður siglir hverri alla leið. Nokkrir skútustjórar freista þess í Íslandskeppninni að uppfylla skilyrðin.
Mikil stemmning var í Paimpol í aðdraganda kappsiglingarinnar. Þangað streymdi fólk víðs vegar að til að fylgjast með keppninni. Íslenski fáninn blakti víða við hún og tengsl bæjarins við Ísland frá gamalli tíð fóru ekki framhjá neinum.
Þaðan voru gerð út til veiða við Ísland hátt í hundrað gólettur þegar best lét í lok nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu. Útgerðarmenn í Paimpol settu upp bækistöðvar í Grundarfirði og í minningu fiskiskútanna er siglt þangað nú. Vinabæjarsamband er með Grundarfirði og Paimpol.
Framvinda siglingakeppninnar Skippers d'Islande