Talið er að um 20 manns hafi lent í mengunarslysinu við sundlaugina á Eskifirði á öðrum tímanum í dag. Allir eru komnir á heilsugæslu til skoðunar og þeir sem urðu fyrir mestum áhrifum af gasinu voru fluttir á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað.
Flugvél var send frá Reykjavík til Egilsstaða með slökkviliðsmenn, greiningarsveit frá Landsspítala-háskólasjúkrahúsi auk bráðatækna. Að auki er þyrla Landhelgisgæslunnar á leið til Neskaupstaðar. Flugvélin flytur einnig birgðir af súrefni austur. Tvær flugvélar fóru frá Akureyri til Neskaupstaðar með sjúkraflutningamenn og lækni auk súrefnisbirgða, fyrri vélin er komin til Neskaupstaðar. Frá þessu segir í tilkynningu frá Samhæfingarstöð björgunarmiðstöðvar í Skógarhlíð í Reykjavík.