"Fæ vonandi að fara heim á morgun"

Ég var staddur við afgreiðsluborðið á vakt þegar ég sá að fólk hélt fyrir augu og nef og hljóp í burtu. Ég hljóp út að sundlaugarbakka og kannaði þetta og þá fann ég að þetta brenndi öll öndunarfæri svo ég sagði öllum að drífa sig beint út á plan," segir Andri Bergmann, sem var einn þriggja sundlaugarvarða á vakt í sundlauginni á Eskifirði þegar eiturefnaslysið varð í gær. Blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við Andra á Fjórðungssjúkrahúsinu á Norðfirði í gærkvöldi. Þar dvaldist hann í nótt, en Andri var einn þeirra 33 einstaklinga sem fluttir voru til skoðunar á sjúkrahúsinu vegna öndunarerfiðleika eftir slysið. Andri segir að sundlaugargestir hafi í fyrstu ekki áttað sig á hvað var að gerast. Þeir hafi fyrst hlaupið inn í búningsklefa en þar hafi ástandið verið litlu betra svo fólk hafi hlaupið út á götu. "Krakkarnir urðu hræddir þegar lögreglan kom, en þeir sem eldri eru voru mjög rólegir, sýndu mikla stillingu og reyndu að hjálpa þeim sem var óglatt eða voru hræddir. Þeir reyndu að róa fólk þar til aðstoð barst, sem gerðist mjög fljótt," segir Andri.

Hann kveðst í fyrstu ekki hafa fundið fyrir öndunarerfiðleikum en svo hafi þeir gert vart við sig. "Þá fór ég á heilsugæslustöðina á Eskifirði og var þaðan fluttur hingað á Norðfjörð," segir Andri. "Þetta er allt að koma, mér líður ágætlega og vona að ég fái að fara heim á morgun," sagði Andri í samtali við blaðamann í gærkvöldi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert