Hættuástand vegna eiturgufna í sundlaug Eskifjarðar

Um þrjátíu manns voru fluttir á sjúkrahús í gær eftir eiturefnaslys á Eskifirði þar sem klórgas lagði yfir sundlaugina í bænum. Slysið má rekja til þess að edikssýru var fyrir mistök hellt í klórtank laugarinnar. Á þriðja tug manna, aðallega börn og unglingar, var í lauginni þegar eitrunarinnar varð vart með þeim hætti að fólk fór að hósta og kúgast, megn fýla fannst af gasinu og fólk hné niður og kastaði upp.

Börn munu hafa verið í meirihluta þeirra sem veiktust og fleiri konur en karlar. Fyrst voru allir fluttir á Heilbrigðisstofnun Austurlands í Neskaupstað en þaðan voru fjórir, þar af þrjár ungar stúlkur, fluttir með þyrlu á sjúkrahús í Reykjavík og tveir til Akureyrar. Tólf manns voru á sjúkrahúsinu í Neskaupstað í nótt og var líðan þeirra stöðug í gærkvöldi, að sögn vakthafandi læknis. Aðallega var um að ræða einkenni frá lungum, öndunarörðugleika og hósta.

Svæðið lokað af og hús rýmd

Samhæfingarstöð almannavarna var virkjuð þegar ljóst var að hættuástand hefði skapast og ákveðið var að senda flugvélar og þyrlur til að annast flutninga á fólki. Á fimmta tug manna tók þátt í aðgerðum á vettvangi, heilsugæslufólk, björgunarsveitir, slökkvilið og lögregla. Lögregla lokaði stóru svæði umhverfis sundlaugina, innsiglaði sundlaugarbygginguna og hús í næsta nágrenni voru rýmd.

Stórhættulegt efni

Mildi þykir að ekki varð manntjón en klórgas er stórhættulegt og getur verið banvænt í miklu magni, að sögn sérfræðinga. Fyrstu rannsóknir benda til að starfsmaður OLÍS hafi afgreitt rangt efni til sundlaugarinnar og því sé um mannleg mistök að ræða.

"Ég varð líka dálítið hræddur"

"Mér líður bara ágætlega, en þetta var dálítið skrýtinn dagur," sagði Aron Gauti Magnússon, átta ára piltur á Eskifirði sem var einn þeirra sem staddir voru í sundlauginni í gær þegar eiturefnaslysið varð þar. Hann var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Norðfirði eftir slysið og lagður þar inn í nótt til eftirlits, en móðir hans, Jóna Mekkín Jónsdóttir, var honum til halds og trausts á sjúkrahúsinu.

"Ég varð líka dálítið hræddur, en ég fór einn í sund," sagði Aron Gauti sem var nýkominn út úr búningsklefanum þegar slysið varð. "Ég fór aðeins ofan í en svo sá ég gulgrænan reyk koma upp úr kjallaranum og fann skrýtna lykt. Síðan sá ég að allir hlupu upp úr og byrjuðu að hósta. Ég hélt niðri í mér andanum og fór út. Svo þurfti ég strax að fara til læknis," segir hann og bætir við að sér hafi brugðið mjög mikið við slysið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert