"Hljóp upp í lögreglubíl á handklæði og bikiníi"

Ég skildi allt saman eftir, hljóp upp í lögreglubíl á handklæði og bikiníi, brunaði upp í bæ og sótti [lögreglu]búninginn," segir Arnfríður Hafþórsdóttir, lögreglukona á Eskifirði, en hún var á frívakt og stödd í sundlauginni þegar eiturgufurnar tóku að berast út í loftið í gærdag. Arnfríður brást skjótt við og hófst strax handa við að koma fólki úr lauginni og inn í hús. Hún var á leið á vakt hjá lögreglunni í gærdag en ákvað að bregða sér í sund í góða veðrinu áður en vinna hæfist. "Ég ligg í lauginni þegar ég finn að þessi sterka lykt kemur hér yfir allt saman," segir hún og kveðst strax hafa farið upp úr. Hún hafi velt því fyrir sér hvað væri að gerast, en ekkert mengunarský séð. "Maður fann strax í öndunarfærunum að það var eitthvað sem stoppaði þegar maður ætlaði að anda þannig að ekki var hægt að anda nógu vel. Þannig að ég greip strax fyrir munninn, tók handklæðið mitt og hélt því fyrir meðan ég var að koma öllum út," segir Arnfríður.

Sama ástand í klefunum

"Ég hleyp strax inn í klefa og rek krakkana áfram ásamt foreldrum sem voru á staðnum og öðru fullorðnu fólki til að koma börnunum inn í hús. Um leið og við komum inn í búningsklefann var alveg sama ástand þar; komin lykt inn um allt. Þá var að koma börnunum út á plan og sinna þeim sem verst voru á sig komnir. Svo náttúrlega bara stökk ég af stað í handklæðinu og bikiníinu, náði í búninginn og klæddi mig í hann yfir sundfötin," segir Arnfríður. Hún fór svo strax niður á heilsugæslustöð og hélt áfram að vinna. Arnfríður segir fullorðna fólkið sem statt var í lauginni, starfsmenn og aðra, hafa sýnt mikið snarræði. "Það stóðu allir mjög vel að þessu. Læknar, sjúkraliðar, lögreglumenn, yfirlögreglumenn og allir sem hlut áttu að máli. Þetta gekk allt smurt fyrir sig," segir hún. Aðeins hafi liðið um ein mínúta frá því lyktin fannst við sundlaugina þar til allir voru komnir út.

Leið vel eftir daginn

Spurð hvernig sundlaugargestum hafi orðið við segir hún að börnin hafi orðið ofboðslega hrædd og fullorðna fólkið skelkað, enda hafi enginn vitað hvað var að gerast. "Svo þegar lögreglan, sjúkraflutningamenn, slökkvilið og allt liðið kom fengu börnin áfall. Þau vissu ekki hvað var í gangi og urðu hrædd. Sem betur fer var öllum komið á heilsugæslustöðina þar sem fólk var til aðstoðar, talaði við þau og þau róuðust sem betur fer." Þegar blaðamaður ræddi við Arnfríði í gærkvöldi sagði hún að sér liði vel eftir daginn. "Það er gaman að hafa tekið þátt í þessu frá a-ö og sjá hvað allir, þegar þeir eru kallaðir út fyrirvaralaust, geta unnið vel saman," segir Arnfríður.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert