Um þrjátíu manns, flestir börn og unglingar, voru í sundlauginni þegar eitrunarinnar varð vart með þeim hætti að fólk byrjaði að hósta og kúgast, megn fýla fannst af gasinu og loks hné fólk niður, kastaði upp og barðist við talsverð særindi í öndunarvegi. Lögreglukona sem var í sundlauginni þykir hafa sýnt mikið snarræði þegar hún í hendingskasti tók til við að koma fólki upp úr lauginni og út úr byggingunni. Byggingar í nágrenni sundlaugarinnar voru rýmdar, þ. á m. leikskóli. Allir þeir sem voru í lauginni og byggingunni urðu fyrir eitrun, þó í mismiklum mæli væri og þurftu 28 beina læknisaðstoð, en á fimmta tug manna hafði í gærkvöld leitað aðhlynningar á einn eða annan hátt hjá heilsugæslu vegna atburðarins, m.a. voru börnin sem voru í leikskólanum skammt frá lauginni athuguð m.t.t. eitrunar.
Á fimmta tug manna kom að björgunaraðgerðum á vettvangi, þ.m.t. heilsugæslufólk, björgunarsveitir frá Fjarðabyggð, Seyðisfirði og Héraði, slökkvilið og lögregla. Lögreglan á Eskifirði og björgunarsveitir lokuðu stóru svæði umhverfis vettvang, innsigluðu sundlaugarbygginguna sjálfa og hús í næsta nágrenni við sundlaugina voru rýmd, þ.m.t. leikskólinn í bænum, og fólki í húsum nokkru fjær, en undan ríkjandi vindátt sem lagði inn fjörðinn, sagt að halda sig innandyra og loka gáttum.
Samhæfingarstöð almannavarna í Reykjavík var virkjuð til aðstoðar meðan á aðgerðum stóð. Á Reykjavíkurflugvelli var farþegaflugvél rýmd og send með henni 6 manna hópur eiturefnaslökkviliðsmanna og greiningarsveit frá Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Heimaslökkviliðin höfðu ekki yfir að ráða fullnægjandi öryggishlífum gegn klórgasinu, sem er mjög eitrað. Björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar, TF- Líf, flaug til Neskaupstaðar síðdegis í gær og flugvél gæslunnar, TF-Sýn, flutti austur þrjá lækna og þrjá sjúkraflutningamenn. Rauði kross Íslands opnaði í gærdag söfnunarstað aðstandenda í grunnskólanum á Eskifirði og á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað og leitaði nokkur hópur fólks þangað.
Í dæluherberginu eru klórdælur og dæla þær klór út í sundlaugarvatnið í dropatali í gegnum talsvert langar pípulagnir. Ekki er talið að klórgasið hafi komist í sundlaugarvatnið svo neinu nemi en það er þó ekki fullvíst.
"Það voru menn frá mér að vinna í kjallaranum að viðgerðum," sagði Ágúst Bogason pípulagningameistari í samtali við Morgunblaðið, en hann lagði í allt húsið og var staddur á vettvangi ásamt verkefnisstjóra Íslenskra aðalverktaka sem byggðu mannvirkið, Guðgeiri Sigurjónssyni. "Þeir sáu fyrst gula gufu vella eftir gólfinu og svo varð hún græn. Þeir tóku á rás upp stigann, strákarnir. Þeir fengu mest af gasinu á sig, sviða í augu og áttu erfitt um andardrátt," sagði Ágúst.
Eiturgufan vall svo upp frá klórklefanum, sem er við hlið hurðar að kjallara byggingarinnar. Lagði klórgasský út yfir sundlaugina sjálfa og inn í húsið. Urðu gestir á bakka sundlaugarinnar fyrst fyrir eitrunareinkennum en svo breiddist eitrið yfir laugina og inn í húsið að einhverju leyti, mest þó í kjallarann.
"Á þessu stigi er ekkert hægt að segja um hver ber þarna ábyrgð," sagði Guðmundur Bjarnason, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, í gærdag á vettvangi. "Hafi efnið verið afhent fyrir mistök er þar um afar alvarlegan hlut að ræða. Þetta mál verður rannsakað ofan í kjölinn." Hann segir heilsugæslufólk sem og aðra sem komu að atburðunum hafa staðið sig ákaflega vel. "Mér virðist það koma í ljós þegar á reynir hversu heilsugæslan hjá okkur er ótrúlega seig."
Í nótt var rúmur tugur þeirra sem lentu í eitruninni til eftirlits á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað, en aðrir höfðu verið útskrifaðir, utan þeirra sex sem eru til aðhlynningar á Akureyri og í Reykjavík.
Í samtali við lögreglu í gær kom fram að þeir lögregluþjónar og björgunarsveitarmenn sem voru við sundlaugarbygginguna í gærdag fundu margir lykt af klórgasinu og remmu í hálsi, þrátt fyrir að hafa verið áveðurs við bygginguna.
Slökkvilið lauk við að ræsta eiturgufurnar út úr sundlaugarbyggingunni með viftu og blásara í gærkvöld og búið er að tæma laugarkerið. Ekki er ljóst hvenær laugin verður opnuð að nýju en hún verður lokuð í tvo daga hið minnsta.
Klórinn sem notaður er til að sótthreinsa vatnið í lauginni er geymdur í mjög basískri lausn sem heldur gasinu uppleystu. Þegar sýru er hellt í lausnina, eins og gerðist á Eskifirði, hvarfast hún við basann og við það rýkur gasið upp úr blöndunni.
Klórgasið getur haft langvarandi áhrif og þá helst á lungu ef menn verða alvarlega veikir, að sögn Jakobs Kristinssonar, lyfjafræðings og dósents í eiturefnafræði við Háskóla Íslands. "Lungun eru langviðkvæmust og alvarlegustu einkennin koma fram í þeim. Það getur dregið úr afköstum þeirra og menn geta fengið lungu sem líkjast lungum í gömlu reykingafólk."
"Við munum rannsaka slysið ofan í kjölinn til að komast að því nákvæmlega hvernig þetta var. Í framhaldi af því verður farið yfir allar reglur sem gilda um meðferð slíkra efna og skoðað hvort auka þurfi fræðslu starfsfólks sem vinnur með þau."
Hann segir að mjög strangar reglur gildi um meðferð eitraðra efna af þessu tagi og að allir bílstjórar sem flytji þau þurfi að hafa sérstakt réttindanám að baki. Þarna hafi hins vegar orðið mannleg mistök.
Eyjólfur bendir á að tvö slík tilfelli hafi komið upp í sundlaugum úti á landi fyrir nokkuð löngu síðan en þá hafi ekki orðið alvarleg slys á fólki eins og nú. Alvarlegt klórslys hafi hins vegar komið upp í kjötvinnslu á Hellu fyrir um áratug síðan þegar fjórtán manns þurftu að leita sér læknisaðstoðar.
Þeir sem stóðu að samhæfingaraðgerðum í gær voru sammála um að allt hefði gengið mjög vel fyrir sig, enda hefðu atburðir sem þessir margoft verið æfðir og menn viðbúnir hinu versta.
Samhæfingarstöð almannavarna hefur það hlutverk að samhæfa aðgerðir milli umdæma í almannavarnarástandi, auk þess sem hún fer með umsjón sjúkraflutninga og úrvinnslu á skráningu þolenda stórslysa. Fulltrúar úr röðum viðbragðsaðila og sjálfboðaliða skipa stjórn Samhæfingarmiðstöðvarinnar. Í henni eiga m.a. sæti fulltrúar frá Neyðarlínunni, lögreglu, slökkviliði, Landlækni, Landhelgisgæslunni, Landsbjörg og Rauða krossi Íslands. Slysið á Eskifirði er fyrsta efnaslys sem kallað hefur á aðgerðir Samhæfingarstöðvar almannavarna.
13:40 Ákvörðun tekin um að kalla saman viðbragðsaðila í Samhæfingarstöð almannavarna.
15:08 Flugvél í áætlunarflugi rýmd á Reykjavíkurflugvelli og slökkviliðsmenn fluttir á Egilsstaði.
15:15 Tvær sjúkraflutningsflugvélar frá Akureyri lenda í Neskaupstað. Fyrsta utanaðkomandi hjálpin.
15:56 Flugvélin sem flutti slökkviliðsmennina lendir á Egilsstöðum.
16:06 Þyrlan TF-LÍF lendir í Neskaupstað og flytur í kjölfarið þá alvarlegast slösuðu til Egilsstaða.
16:12 Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, lendir á Egilsstöðum með fólk af greiningarsviði LSH. Síðar flytur hún hina slösuðu til Akureyrar og Reykjavíkur.
19:30 Einn sjúklingur lagður inn á slysadeild LSH í Fossvogi og þrír á barnaspítala Hringsins. Tveir þegar í aðhlynningu á FSA.
19:55 Aðgerðum vegna klórgasmengunar á Eskifirði lokið í Samhæfingarstöð almannavarna.
"Við erum mjög slegnir yfir málinu og hugur okkar er hjá þolendum. Sem betur fer benda fyrstu fréttir til þess að afleiðingarnar hafi verið vægari en óttast var," segir Einar.