"Komdu í vinnuna strax"

Við vorum úti í sólbaði þegar við fréttum að eitthvað væri í gangi. "Komdu í vinnuna strax" var okkur sagt," segir Laufey Hálfdánardóttir, hjúkrunarfræðingur á Fjórðungssjúkrahúsinu, í gærkvöldi þegar blaðamaður náði tali af henni og Þórhöllu Ágústsdóttur, sem einnig er hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsinu. Það var í nógu að snúast hjá starfsfólki sjúkrahússins eftir slysið í gær, en þær Laufey og Þórhalla segja að þegar mest var hafi um níu hjúkrunarfræðingar sinnt fólki sem flutt hafði verið á sjúkrahúsið frá Eskifirði. Þórhalla, sem er í Rauða krossinum, kom reyndar fyrst á sjúkrahúsið til starfa fyrir hann, en um tíma í gær var opin fjöldahjálparstöð fyrir aðstandendur inni á spítalanum.

Laufey og Þórhalla segja daginn hafa verið afar annasaman. Nóg hafi verið að gera við "að taka á móti og gera það sem þurfti að gera strax. Þegar ég kom inn úr dyrunum var einmitt að koma sjúkrabíll með fjóra einstaklinga. Þannig að ég tók á móti þeim við lyftuna, fylgdi þeim upp og hélt áfram að hugsa um þá þar," segir Laufey. Þær segja að flestir sjúklinganna hafi þurft að fá lyf, fara í sturtu og fá hrein föt. Þá hafi margir þurft á súrefnisgjöf að halda og lungnamyndatöku. Aðstæðurnar í gær hafi vissulega verið óvenjulegar en "þeir sjúklingar sem hér fór í gegn í dag [í gær] eru fleiri en við höfum rúm fyrir," segir Þórhalla. Þröng hafi verið á þingi á göngum sjúkrahússins, en fjöldi aðstandenda og lækna hafi einnig verið á staðnum.

Laufey og Þórhalla sögðu að þeim liði vel eftir daginn.

"Þetta gekk vel og fólk virðist sem betur fer koma þokkalega út úr þessu," sagði Laufey. Hlutirnir virðist hafa farið betur en á horfðist. Mikið hafi verið að gera en dagurinn "er búinn að vera ofsalega fljótur að líða. Nú erum við að vinna í pappírum, koma reiðu á og erum aðeins að átta okkur á hlutunum." Ró hefði komist yfir um áttaleytið í gærkvöldi en þá hefði verið búið að útskrifa hóp af fólki sem gat farið heim. Alls gistu tólf manns þar í nótt eftir slysið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert