Sá gulgrænan reyk koma upp úr kjallaranum

Aron Gauti Magnússon, sem er á níunda ári og býr á Eskifirði, var einn þeirra sem staddir voru í sundlauginni á Eskifirði í gær þegar eiturefnaslysið varð. Hann var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Norðfirði eftir slysið og var lagður þar inn í nótt til eftirlits, en móðir hans, Jóna Mekkín Jónsdóttir, var honum til halds og trausts á sjúkrahúsinu. Aron Gauti hafði brugðið sér í sund í gær og var nýkominn út úr búningsklefanum þegar slysið varð. "Ég fór aðeins ofan í en svo sá ég gulgrænan reyk koma upp úr kjallaranum og fann skrýtna lykt. Síðan sá ég að allir hlupu upp úr og byrjuðu að hósta. Ég hélt niðri í mér andanum og fór út. Svo þurfti ég strax að fara til læknis," segir hann og að sér hafi brugðið mjög mikið. "Ég varð líka dálítið hræddur, en ég fór einn í sund," segir hann. Aron segir að sér hafi verið ekið á heilsugæslustöðina en svo hafi hann farið inn í apótek bæjarins, þar sem eldri systir hans vinnur. "Hún hringdi í mömmu og pabba," segir hann. "Mér líður bara ágætlega, en þetta var dálítið skrýtinn dagur," sagði Aron við blaðamann á Fjórðungssjúkrahúsinu í gærkvöldi.

Jóna Mekkín, móðir Arons, var í vinnunni þegar hún frétti af því sem gerst hafði. "Ég rek litla sjoppu í bænum og hljóp út úr henni og kallaði á mann sem var hinum megin við götuna og bað hann að læsa því eitthvað hefði komið fyrir barnið mitt," segir Jóna Mekkín. "Maðurinn minn hringdi fyrst í mig og sagði mér að það væri eitthvað að gerast við sundlaugina, þar væru slökkviliðs- og sjúkrabílar og að sonur okkar væri í sundi. Ég bara beið og svo hringdi síminn aftur eftir nokkrar mínútur og þá var mér sagt að Aron væri á heilsugæslustöðinni. Ég vissi ekkert hvað hafði gerst og hljóp bara út," segir Jóna Mekkín. Hún hafi fundð Aron í apótekinu og farið með hann yfir á heilsugæslustöðina. "Ég panikeraði algjörlega," segir Jóna, aðspurð hvernig henni hafi orðið við. "Ég kom inn í apótek og heyrði barnið mitt gráta þar. Hann ætlaði ekki að vilja koma með mér inn á heilsugæsluna því hann var það hræddur," segir Jóna Mekkín. Hún dvaldist ásamt Aroni Gauta á sjúkrahúsinu í nótt.

Jóna Mekkín er afar ánægð með viðbrögð björgunar- og læknaliðs, sem hafi haldið ró sinni þrátt fyrir að sundalaugargestir væru í misjöfnu ástandi eftir slysið og ekkert vitað í fyrstu hverju fólk hafði andað að sér. "Þetta var svo stórkostlegt, þetta róaði allt og alla niður," segir hún. "Svo fórum við hingað yfir [á Norðfjörð] og það var alveg sama sagan hér. Maður gat ekki ímyndað sér að hér væri verið að taka á móti stórum hóp af fólki sem eitthvað var að," segir Jóna Mekkín. "Þetta fólk á heiður skilinn fyrir starf sitt og fyrir að hafa haldið ró sinni," bætir hún við.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert