Frönsku skúturnar nálgast landið hraðbyri

Frá upphafi kappsiglingarinnar við Paimpol. Skúta Escoffier er hér þriðja, …
Frá upphafi kappsiglingarinnar við Paimpol. Skúta Escoffier er hér þriðja, l.t.v. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson

Útlit er fyrir að fyrsta skúta í siglingakeppninni milli Frakklands og Íslands komi til hafnar í Reykjavík á morgun, föstudag, eða á laugardag, miðað við þá ferð sem verið hefur á henni síðasta sólarhringinn. Víðáttumikil lægð um 500 km suðvestur af Reykjanesi sem hreyfist lítið sér skútunum fyrir góðum byr næsta sólarhringinn.

Skúta frönsku konunnar Servane Escoffier frá Saint Malo tók forystu í keppninni frá Paimpol í Frakklandi til Íslands og baka rétt eftir að Tómas Ingi Olrich, sendiherra Íslands í Frakklandi, ræsti keppendur af stað klukkan 20 að staðartíma sl. laugardag, klukkan 18 að íslenskum tíma.

Samkvæmt síðustu staðarákvörðun skútanna, klukkan 4:15 að íslenskum tíma í nótt, átti skúta Escoffier, Vedettes de Brehat. , 312 sjómílur eftir til Reykjavíkur. Átti því þriðjung leiðarinnar eftir að loknum rétt rúmlega fjögurra sólarhringa siglingu.

Síðasta sólarhring hefur Escoffier haft góðan byr í seglinn og miðað áfram á 14-15 sjómílna hraða. Hefur hún fundið betri byr en keppinautarnir því næsta skúta var í nótt 160 mílum á eftir, eða sem nemur hálf sólarhrings siglingu í núverandi byr.

Keppni um sæti er talsverð og á mörgum skútum á hinni rúmlega 1.200 sjómílna leið munar aðeins einni til 10 mílum. Escoffier er í sérflokki og skríður skúta hennar hraðast, eða hvorki meira né minna en 352 sjómílur síðasta sólarhringinn.

Þá hefur belgíska skútan Merene verið í góðum byr því hún hefur lagt að baki 228 mílur undanfarinn sólarhring og færst úr 15. sæti í það sjöunda.

Áætlað var að skúturnar kæmu til Reykjavíkur um og upp úr næstu helgi, en útlit fyrir að nokkrar verði komnar í höfn þegar á sunnudag miðað við veðurhorfur og byr á leiðinni.

Ungfrú Escoffier er 24 ára og yngsti skútustjóri keppninnar og önnur tveggja skipherra af kvenkyni í keppninni. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún skapað sér nafn fyrir kappsiglingar. Sl. vetur varð hún í þriðja sæti í Transat-siglingunni, 4.340 sjómílna keppni frá Le Havre í Frakklandi til Salvador de Brehat, hinnar fornu höfuðborgar Brasilíu. Sigldi hún þá við annan mann skútunni sem vann þá keppni 2003 og einnig siglinguna eftir Rommleiðinni 2002.

Sömu skútu stýrir Escoffier nú í Skippers d’Islande keppninni. Að þessu sinni freistar hún þess að uppfylla með Íslandssiglingunni skilyrði til þátttöku í keppninni eftir Rommleiðinni í haust. Í því felst að hún verður að sigla ein síns liðs á bakaleiðinni, 1.300 sjómílur frá Grundarfirði til Paimpol.

Framvinda siglingakeppninnar Skippers d'Islande

Heimasíða Skippers d'Islande-keppninnar

Myndasyrpa: Sigla í kapp um slóðir franskra Íslandssjómanna

Staða skútanna klukkan 4:15 í nótt.
Staða skútanna klukkan 4:15 í nótt. mbl.is/skippers d'islande
Mikil sigling hefur verið á belgísku skútunni Merene. Hefur hún …
Mikil sigling hefur verið á belgísku skútunni Merene. Hefur hún síðasta sólarhring færst úr 15 sæti í það sjöunda. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert