Það var tignarleg sjón á ytri-höfninni í Reykjavík er skúturnar í kappsiglingunni Skippers d’Islande voru ræstar klukkan eitt í annan áfangann, frá Reykjavík til Grundarfjarðar. Fengu þær góðan byr í nefið og þurfa því að beita leiðina út fyrir Snæfellsnes. Þaðan ættu þær svo að hafa góðan meðbyr á lokasprettinum. Gert er ráð fyrir að þær verði allar komnar til Grundarfjarðar á morgun, en þangað er 105 sjómílna sigling.
Í fyrsta áfanga sigldu skúturnar 19 til Reykjavíkur frá Paimpol á Bretaníuskaga, einum helsta útgerðarbæ fiskiskúta á Íslandsmiðum á öldum fyrri. Útgerðarmenn þaðan höfðu bækistöðvar í Grundarfirði og því er útgerð fiskiskútanna minnst með siglingunni nú. Vinabæjarsamband er með Grundarfirði og Paimpol og verður vestra vígður minnisvarði um veiðar Frakka sem Paimpol hefur gefið.
Í siglingunni til Grundarfjarðar taka að auki þátt nokkrar íslenskar skútur og verður um óformlega „vináttukeppni“ að ræða milli þeirra og frönsku skútanna.
Önnur tveggja skólaskipa franska flotans sem keppnisskútunum fylgdu til Íslands flutti minnisvarðann hingað til lands. Skólaskipin tvö eru smíðuð á fjórða áratug síðustu aldar, um svipað veiðum og skútuveiðum Frakka lauk hér við land. Eru þau eins og góletturnar sem hingað sigldu frá Paimpol.
Með forystu í siglingakeppninni er ung frönsk skútustýra, Servane Escoffier, en hún lauk siglingunni til Reykjavíkur á sérsmíðuðum kappsiglara á fimm dögum og 13 klukkustundum. Til samanburðar var lengst á leiðinni 36 ára gömul ferðaskúta, Olbia, en hún var 9 daga og eina klukkustund til Reykjavíkur. Munar þar hálfum fjórða sólarhring.
Keppnin hófst í Paimpol 24. júní og ráðgert er að henni ljúki þar 21. júlí. Frá Grundarfirði leggja skúturnar upp næstkomandi miðvikudag, 12. júlí. Þá bíður keppenda lengsti leggurinn, 1.300 sjómílna sigling. Aðeins einn keppandi verður á sex þeirrar þar sem viðkomandi freista þess með siglingunni að uppfylla skilyrði til enn lengri kappsiglingar frá Saint-Malo á Bretaníuskaga til Gaudeloup í Karíbahafi í október. Þar er um að ræða kappsiglingu eftir rommleiðinni svonefndu.
Af keppnisskútunum nú hafa þrjár tekið þátt í báðum fyrri Skippers d’Islande-keppnunum, árin 2000 og 2003. Að auki sigla fjórar skútur nú öðru sinni milli Paimpol og Íslands til heiðurs frönsku fiskimönnunum.