Skólaskip franska sjóhersins gólettan L’Etoile lagðist að bryggju í Grundarfjarðarhöfn um miðjan dag. Auk 30 manna áhafnar flutti skútan með sér steinkross einn mikinn og fornan sem reistur var með viðhöfn á Grundarkampi þar sem hinn forni Grundarfjarðarkaupstaður stóð.
Krossinn, sem er gjöf frá Paimpol vinabæ Grundarfjarðar, er minnisvarði um franska sjómenn sem létust á Íslandsmiðum. Stendur hann þar sem franskir sjómenn reistu sér kirkju á sínum tíma, en hún var rifin er þeir héldu af landi brott.
Sr. Elinborg Sturludóttir sóknarprestur stjórnaði helgistund sem fram fór bæði á frönsku og íslensku en franskir sjóliðar mynduðu heiðursvörð. Eftir helgistundina var rósum varpað í sjóinn til að heiðra minningu um látna franska sjómenn. Fjölmargir Grundfirðingar sem og franskir skútusjómenn sem þátt taka í keppninni Skippers d’Islande voru viðstaddir athöfnina á Grundarkampi.