Valgerður Auðunsdóttir bóndi á Húsatóftum I segir með ólíkindum hvað útihús á bænum hafi brunnið á skömmum tíma, enda sé nú allt mjög þurrt. Hún vaknaði um klukkan sex í morgun við bresti þar sem þaksperrur fjóssins á bænum brunnu, þakið féll skömmu síðar.
Valgerður náði að bjarga fimm kúm, kvígu sem á að bera í mánuðinum og kálfi. Um þrjátíu gripir brunnu inni, en kvígur eru allar úti og sluppu því. Hreinsunarstarf er hafið og er verið að slökkva í glæðum og komast fyrir reyk.
Valgerður segir tjónið eðlilega mikið þar sem lifibrauð þeirra hafi svo að segja brunnið til kaldra kola. Segir hún starfsmenn tryggingafélagsins koma síðar í dag til að meta tjónið og að þau hjónin eigi í raun ekki húsin lengur. Valgerður vill ekkert segja um það hvort ný útihús verði byggð í kjölfarið.
Samkvæmt upplýsingum frá brunavörnum Árnessýslu verður unnið að því í dag að slökkva í glæðum og hreinsa fram eftir degi auk þess sem gripirnir verða urðaðir í samvinnu við heilbrigðiseftirlitið.
Slökkvilið var kallað út um tuttugu mínútur yfir sex í morgun og voru húsin alelda þegar það kom á staðinn. Þök húsanna féllu og eru húsin ónýt.
Eru að sögn ýmsar getgátur uppi um eldsupptök, en ekkert er hægt að segja með vissu að svo stöddu.
Á vefsíðu lögreglunnar kemur fram að eiginlegu slökkvistarfi hafi lokið um kl. 8, en brunavakt er við húsin og er hafin vinna við rannsókn eldsupptaka. Lögreglan á Selfossi hefur leitað eftir sérfræðiaðstoð frá Tæknideild Lögreglunnar í Reykjavík vegna rannsóknarinnar auk þess sem rannsóknarmenn frá Neytendastofu munu kanna sérstaklega hvort kviknað hafi í út frá rafmagni.
Vettvangurinn er yfirgripsmikill og mun þessi vinna taka nokkurn tíma.
Ljóst er að fjárhagslegt tjón af brunanum nemur tugum milljóna.