20 kílóum af dínamíti fargað

Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar var kölluð út á gámasvæði Sorpstöðvar Selfoss á örðum tímanum í dag. Þangað höfðu tveir menn komið með um 20 kíló af dínamíti og skilið eftir í aðalhúsnæði sorpstöðvarinnar og var talin hætta á að dínamítið springi.

Fram kemur á fréttavefnum Suðurlandi.is, að sprengjusérfræðingar brugðust skjótt við og færðu dínamítið á opið svæði skammt frá. Þar helltu þeir sérstakri efnablöndu yfir sprengiefnið og báru síðan eld að og brann dínamítið þá án þess að springa.

Dínamítið var hluti af leifum af byggingarframkvæmdum, sem mennirnir sem skiluðu því höfðu staðið að. Það er talið vera um 20–30 ára gamalt en í góðu ásigkomulagi miðað við aldur.

Oddur Árnason, lögreglumaður á Selfossi, segir það vítavert gáleysi að fara með dínamít með þessum hætti. Hann hvetur þá sem hyggjast losa sig við sprengiefni að hafa samband við lögreglu áður.

Suðurland.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert