Byrjað að fljúga til Eyja að nýju

Stuðmenn spiluðu fyrir þjóðhátíðargesti í gærkvöldi. Þeir spila í Fjölskyldugarðinum …
Stuðmenn spiluðu fyrir þjóðhátíðargesti í gærkvöldi. Þeir spila í Fjölskyldugarðinum í kvöld. mbl.is/Eggert

Flug er hafið til Vestmannaeyja að nýju en það hefur legið niðri frá því í morgun vegna þoku. Til stóð að fimm flugvélar Landsflugs færu frá Reykjavík til Eyja með þjóðhátíðargesti.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur allt farið vel fram á þjóðhátíðinni. Áætlað er að um níu þúsund manns séu á hátíðinni.

Á daglegum samráðsfundi lögreglu með stjórnendum á hátíðarsvæðinu kom fram að þrátt fyrir talsverða rigningu og bleytu á hátíðarsvæðinu var fremur rólegt á læknavaktinni í dalnum, nokkrir sneru sig og aðrir þurftu á minniháttar aðhlynningu að halda.

Kærur eru fáar, engar líkamsárásar- eða nauðgunarkærur hafa borist eftir nóttina og einungis 4 minniháttar fíkniefnamál hafa komið upp frá því fíkniefnalöggæsla hófst af fullum þunga á fimmtudagsmorgun.

Mikill viðbúnaður er hjá lögreglunni vegna fíkniefna og þrír hundar að störfum og 8 fíkniefnalögreglumenn. Lögregla telur að minna berist af fíkniefnum til Eyja en mörg undanfarin ár. Hátíðargestir eru vel búnir að mati lögreglu og lítið um vosbúð gesta.

Á vefnum dalurinn.is kemur fram að eitt af einkennum þjóðhátíðarinnar er tjaldborg sem heimamenn reisa með hvítum stórum hústjöldum. Eyjamaðurinn Friðbjörn Ó. Valtýsson hefur í mörg ár haft þann siðinn á að telja hvítu tjöldin á þjóðhátíð.

Dalurinn.is setti sig í samband við Friðbjörn fyrr í dag og að hans sögn eru hvítu tjöldin 295 í ár. Árið 1986, sem löngum hefur verið talin stærsta Þjóðhátíðin til þessa, voru hvítu tjöldin 330 talsins. Það má því segja að hátíðin í ár sé í mjög góðu meðallagi.

Strax að afloknum brekkusöng hefur í mörg ár verið tendrað á fjölda blysa í brekkunni í Herjólfsdal. Friðbjörn hefur síðan séð um blysin og segir hann að blysin verði 132 í ár - eitt fyrir hverja Þjóðhátíð sem haldin hefur verið.

Að sögn Friðbjörns verða blysin í ár til minningar um Runólf Gíslason frá Hvanneyri í Vestmannaeyjum, sem féll frá fyrir skömmu. Runólfur, sem féll frá langt um aldur fram, var mikill þjóðhátíðarmaður og tók í mörg ár þátt í undirbúningi hátíðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert