Aukinn viðbúnaður lögreglu á Menningarnótt

Lögreglan í Reykjavík verður með meira eftirlit Menningarnótt í ár en verið hefur. Lögreglumenn á vakt um kvöldið verða nú 70 en voru um 50 í fyrra. Því til viðbótar munu 20 björgunarsveitarmenn til þess að tryggja starfsvettvang lögreglu ef þurfa þykir.

Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn, segir að dæmi séu um að stórir hópar ungs fólks safnist saman í miðborginni á Menningarnótt eftir að dagskrá lýkur, enda síðasta fríhelgi hjá skólafólki. Í fyrra hafi hópamyndun ungs fólks í miðborginni áberandi að skipulagðri dagskrá lokinni, m.a. vegna þess að rigna tók eftir að flugeldasýningu lauk. Lögregla átti erfitt um vik með tvístra hópum og koma í veg fyrir átök innan þeirra og mikil slagsmál brutust út í Hafnarstræti sem enduðu með hnífsstungu.

Geir Jón segir, að lögreglan ætli nú að grípa fyrr inn í og vera komin fyrr á torgið til til að taka á móti fólki sem þar safnast saman.

Þá segir Geir Jón að í ár, líkt og undanfarin ár, verði mikil áhersla lögð á að uppræta unglingadrykkju. Gönguhópar fulltrúa lögreglu og starfsmanna Reykjavíkurborgar muni ganga í bænum og senda börn sem fara á skjön við útivistarregur í Foreldrahúsið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert