Náttúruverndarsamtök Íslands vilja að fram fari óháð og gagnsæ rannsókn á þeirri áhættu sem tekin er með byggingu Kárahnjúkavirkjunar í ljósi þess að stífla í Campos Novos í Brasilíu eyðilagðist í júní s.l. skömmu eftir að hún var tekin í notkun. Segja samtökin að sú stífla hafi verið grjóthleðslustífla með steyptri kápu líkt og stíflan við Kárahnjúka.
Í tilkynningu Náttúruverndarsamtakanna segir, að komið hafi fram að slíkar stíflur leki meira en góðu hófi gegnir. Fyrir utan stífluna í Campos Novos hafi tvær aðrar stíflur sömu gerðar, ein í Brasilíu og hin i Suður Afríku lekið umtalsvert vegna sprungna í steypukápunni.
„Í ljósi þessa og alvarlegrar gagnrýni jarðfræðinga undanförnu vegna skorts á jarðfræðilegum rannsóknum við undirbúning Kárahnjúkavirkjunar er það krafa Náttúruverndarsamtaka Íslands að fram fari óháð og gagnsæ rannsókn á þeirri áhættu sem tekin er með byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Jarðfræðingar hafa staðfest að Kárahnjúkastífla er byggð á virku sprungusvæði og því var frá upphafi rík ástæða til að rannsaka ítarlega alla áhættuþætti er lúta að stíflumannvirkjum svo hægt sé að fullyrða að öryggi þeirra sem búa neðan þeirra sé á engan hátt ógnað. Það er ennfremur krafa Náttuúruverndarsamtaka Íslands að ekki verði hleypt vatni á Hálslón fyrr en ítarleg rannsókn á þessum áhættuþáttum hefur farið fram og óvéfengjanlegar niðurstöður liggja fyrir.