Jón Sigurðsson er nýr formaður Framsóknarflokksins

Jón Sigurðsson nýr formaður Framsóknarflokksins
Jón Sigurðsson nýr formaður Framsóknarflokksins mbl.is/Sverrir

Jón Sigurðsson er nýr formaður Framsóknarflokksins með 54,8% atkvæða. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, fékk 44,15% atkvæða en Haukur Haraldsson fékk eitt atkvæði. Alls var 841 á kjörskrá en 761 greiddi atkvæði eða 90,5%.

Jón segir að hann muni gera allt sem í hans valdi stendur til þess að jafna þann ágreining sem geti komið upp innan Framsóknarflokksins. Segir hann að ábyrgð, samstaða, tillitsemi og gagnkvæm virðing eigi að vera kjörorð Framsóknarflokksins.

Í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins segir Jón að formannsembættið leggist afar vel í hann og þá ekki síst vegna þess að niðurstaða kosninganna hafi verið þannig að allir voru fullsæmdir af henni. Segir Jón að allir standi uppi sem sigurvegarar og það sé forsenda þess að efla og styrkja Framsóknarflokkinn. Jón segir að það að kjósa þurfti formann Framsóknarflokksins, en slíkt hefur ekki gerst í meira en hálfa öld, muni styrkja flokkinn. Að sögn muni það opna umræðuna og auka tillitsemi og gagnkvæma virðingu innan flokksins. Að menn venjist því að uppi séu mismunandi sjónarmið sem sé eðlilegt. Að sögn Jóns var munurinn milli hans og Sivjar meiri en hann hafi átt von á því hann hafi metið stöðuna tvísýnni.

Aðrir sem fengu atkvæði voru Guðni Ágústsson 3, Jón Kristjánsson 2, Jónína Bjartmarz og Ómar Stefánsson eitt akvæði.

Nú að afloknu formannskjöri hefst kosning varaformanns Framsóknarflokksins en tveir eru í framboði til varaformanns: Guðni Ágústsson, sem er varaformaður flokksins og landbúnaðarráðherra, og Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra.

Halldór Ásgrímsson, sem lét af embætti formanns Framsóknarflokksins í dag, hefur gegnt formannsembættinu frá árinu 1994 eða í tólf ár. Hann ákvað í sumar að hætta afskiptum af stjórnmálum og sagði af sér sem forsætisráðherra. Halldór mun ekki taka sæti á Alþingi er það kemur saman í haust.

Siv Friðleifsdóttir óskar Jóni Sigurðssyni til hamingju með sigurinn
Siv Friðleifsdóttir óskar Jóni Sigurðssyni til hamingju með sigurinn Sverrir Vilhelmsson
Jón Sigurðsson er nýr formaður Framsóknarflokksins.
Jón Sigurðsson er nýr formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Sverrir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert