Siv segist starfa af fullum þunga fyrir Framsóknarflokkinn áfram

Jón Sigurðsson og Siv Friðleifsdóttir
Jón Sigurðsson og Siv Friðleifsdóttir Sverrir Vilhelmsson

Siv Friðleifsdóttir, segist vilja óska Jóni Sigurðssyni innilega til hamingju með kjörið. Þau hafi háð harða en drengilega kosningabaráttu. Hún segist vilja þakka fyrir þann stuðning sem hún hafi fundið fyrir í kosningabaráttunni. Hún segir að hún muni vinna að fullum krafti sem ráðherra heilbrigðismála og vinna af fullum þunga með flokknum og í flokkstarfinu.

Í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins segir Siv að sér lítist vel á úrslitin og hún sé mjög þakklát fyrir þann mikla stuðning sem hún hafi fengið í kosningunni til formanns. Siv segir að kosningabaráttan hafi verið mjög tvísýn og því hafi hún verið tilbúin með tvær ræður. Segir hún að niðurstaðan sýni að enginn hafi getað vitað hvernig kosningin færi. Siv segir að sjálfsögðu muni hún starfa áfram með Framsóknarflokknum, hún sé dyggur stuðningsmaður flokksins og hún hafi átt þess kosts að vinna með honum um langt skeið og engin breyting verði þar á.

Sverrir Vilhelmsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert