Jarðhitarannsóknir á Norðausturlandi

Rannsóknir standa nú yfir á jarðhitasvæðum í Bjarnarflagi, á Vestursvæði Kröflu og Þeistareykjum. Markmiðið með rannsóknunum er að auka þekkingu á vinnslugetu svæðanna.

Rannsóknirnar fara meðal annars fram með viðnámsmælingum á yfirborði og tilraunaborunum. Á þessu ári verða þrjár holur boraðar, ein á hverju svæði.

Á vef Landsvirkjunar kemur fram að í Bjarnarflagi hófst borun rannsóknaholu í apríl síðastliðnum. Þessi hola er sérstæð að því leyti að borað er með allt að 48 gráðu halla til norðausturs, þar sem hæstur hiti er samkvæmt mælingum. Talsverðar tafir urðu á borun rannsóknaholunnar vegna leka í holunni. Vegna eigninleika jarðlaganna tapapaðist svonefndur skolvökvi úr holunni. Mikil vinna fólst í að þétta holuna með steypu. Botn holunnar er á 2.155 m dýpi. Í lok júní mældist 340 gráðu hiti í botni holunnar sem gefur jákvæða vísbendingu um afl holunnar.

Í byrjun júní hófu Jarðboranir hf. borun fyrstu rannsóknarholunnar á vestursvæðinu við Kröflu. Vestursvæði er nýyrði um svæðið í Leirhnjúkshrauni milli Þríhyrninga og Ytri- og Syðri-Sátu. Svæðið er talið hafa tengingu við Námafjallssvæðið til suðurs. Líkt og í Bjarnarflagi var nokkur leki í holunni. Talsverðan tíma tók að þétta holuna með steypu. Holan er 2.983 metrar að dýpt og er hún þar með önnur dýpsta borhola landsins á háhitasvæði. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hita í holunni, því gefa þarf holunni meiri tíma til að hitna.

Á Þeistareykjum hafa þegar verið boraðar tvær rannsóknaholur. Ráðgert er að bora tvær holur til viðbótar og hófst borun fyrri holunnar þann 15. ágúst síðastliðinn. Seinni holan verður boruð á árinu 2007. Rannsóknirnar á Þeistareykjum eru unnar á vegum Þeistareykja ehf. sem Landsvirkjun er meðeigandi í.

Stefnt er að því að ljúka rannsóknum á þessum þremur svæðum á næstu þremur árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert