Jóhann Ársælsson, fyrsti þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, tilkynnti á kjördæmisfundi flokksins á Ísafirði í dag að hann ætli ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi þingmennsku. “Það er nú bara þannig að ég er búinn að vera býsna lengi í pólitík fyrst með Alþýðubandalaginu og síðan Samfylkingunni en ég fékk mitt fyrsta pólitíska hlutverk er ég settist í bæjarstjórn á Akranesi árið 1974.,” sagði Jóhann er blaðamaður mbl.is ræddi við hann í dag. “Ég er því mjög sáttur við þá niðurstöðu sem ég hef komist að. Ég gerði þetta upp við mig fyrir nokkru þó ég hafi valið að gera grein fyrir því í dag þannig að ég hef haft góðan tíma til að hugsa þetta mál."
Spurður um það hvað taki við sagði Jóhann að hann ætti enn það verkefni fyrir höndum að fella ríkisstjórnina næsta vor. Hann ætli að vinna að því en eftir það verði hann frjáls til að finna sér sinn eigin farveg og þá verði pólitík aftur hans helsta áhugamál eftir að hafa verið atvinna hans í rúm þrjátíu ár.