Banaslys á Miklubraut í nótt

mbl.is

Kona á sextugsaldri lést er ekið var á hana á Miklubraut um klukkan 03:31 í nótt. Talið er að konan hafi látist samstundis en bifreiðinni var ekið austur Miklubraut að Háaleitisbraut. Konan var á gangi á afrein er liggur af Miklubraut inn á Háaleitisbraut til suðurs, bifreiðinni ekið af akrein Miklubrautar inn á afreinina, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Karlmaður sem var á gangi með konunni slapp ómeiddur. Ökumaður bifreiðarinnar og vitni voru færð á slysadeild Landspítalans háskólasjúkrahúss í Fossvogi til aðhlynningar og áfallahjálpar. Ekki unnt að greina frá nafni hinnar látnu að svo stöddu. Miklabraut var lokuð í um 2 klukkustundir meðan unnið var á vettvangi.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var nóttin ansi annasöm og voru um eitt hundrað verkefni skráð hjá lögreglunni í Reykjavík. Sex voru teknir grunaðir um ölvun við akstur þar af einn sem ók fram hjá lokunum lögreglu meðan verið var að vinna á vettvangi við banaslysið á Miklubraut. Fimm voru teknir fyrir of hraðan akstur, þar af var einn tekinn á 139 km. hraða á Kringlumýrarbraut þar sem hámarkshraði er 80. Síðan var annar tekinn á Sæbraut við Kleppsveg á 137 km hraða þar sem hámarkshraði er 60. Hann var sviptur ökuréttindum á staðnum.

Lögregla segir að mikill fjöldi fólks hafi verið í miðborginni og mikil ölvun. Leigubifreiðar höfðu ekki undan að færa fólk til síns heima því var fjöldi fólks á gangi á og meðfram stofnbrautum á leið til síns heima. Að sögn lögreglu fylgdi mikill sóðaskapur mannfjöldanum í miðborginni í nótt.

Tvö innbrot í fyrirtæki voru tilkynnt til lögreglu í nótt. Átta voru handteknir fyrir ölvun á almannafæri og gista fimm þeirra fangageymslur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert