Forseti Íslands varar við djúpstæðum klofningi á ný

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, gerði brotthvarf Bandaríkjahers frá Íslandi að umræðuefni í ræðu sinni við setningu Alþingis. Sagði Ólafur Ragnar að lærdómarnir séu býsna margir sem læra megi af sögunni en mikilvægastur kannski sá að forðast ber í lengstu lög að Íslendingar verði á ný fórnarlömb svo djúpstæðis klofnings eins og ríkti á tímum kalda stríðsins.

„Því er áríðandi að allir sem ábyrgð bera, bæði á Alþingi og í landstjórninni, bæði nú og um alla framtíð, kappkosti af fremsta megni að ná sem mestri sátt um málefnin sem verða munu á verkaskrá íslenskrar þjóðar.

Kalda stríðið, deilurnar um hersetuna, veru varnarliðsins, fjandskapurinn sem skipti þjóðinni í stríðandi sveitir dró á margan hátt úr getu okkar til að sækja fram; hjaðningavíg á heimavelli veiktu samtakamátt og kraftinn til nýsköpunar.

Aflinu sem hefði mátt verja til framfara á öllum sviðum var beitt í átökum við okkur sjálf. Árangur Íslendinga að undanförnu, útrásin á okkar tímum, blómlegt atvinnulíf og vísindaiðkan, gróskan í menningu og skapandi listum – allt hefur það öðlast aukinn þrótt því þjóðin hefur losnað úr viðjum þessa gamla klofnings.

Það er sannarlega gleðiefni að svo friðsælt sé í okkar heimshluta að mesta herveldi sem veröldin hefur kynnst skuli komast að þeirri niðurstöðu að engum tilgangi þjóni að hafa hér sveitir, að engin þörf sé á vörnum sem áður voru taldar brýnar.

Það er gæfa okkar Íslendinga að eiga nú farsælt samstarf við allar þjóðir á norðurslóðum, að allir vilji vera vinir okkar, að engin hernaðarógn sé í augsýn.

Nú hefur skapast einstakt tækifæri fyrir þing og þjóð að halda til móts við nýja tíma með samstöðuna að leiðarljósi. Áfram verður ágreiningur um ýmis mál, en deilurnar um veru hersins ættu að verða víti til varnaðar um alla framtíð; ávallt verði leiðarljós að samfélag Íslendinga lamist aldrei aftur vegna djúpstæðs þjóðarklofnings.

Við þurfum öll að standa saman, einkum nú þegar veröldin breytist ört og tækifærin bíða í öllum áttum. Á þessum tímamótum ber ég fram þá einlægu ósk að víðtæk og eindregin samstaða skapist um stöðu Íslands í veröldinni og sambúð okkar við aðrar þjóðir.

Nú þurfum við að ná þjóðarsátt um grundvöllinn í utanríkisstefnu Íslendinga.

Alþingi hefur hér einstakt hlutverk. Aldrei fyrr frá lýðveldisstofnun hefur aðstaða skapast til að ná svo víðtækri sátt í þessum efnum. Lítil þjóð þarf á því að halda að einhugur ríki um stöðu hennar í veröldinni, að samstaða sé um samskiptin við önnur lönd. Þá getur hún beitt sér af öllu afli til að skapa íbúum hagsæld og velferð; þá getur hún virkjað kraftana til framfara á öllum sviðum; þá getur hún tryggt sér öruggt sæti í fremstu röð og orðið öðrum þjóðum fyrirmynd.

Þó að tímarnir kalli áfram á úrlausn flókinna viðfangsefna þurfum við að forðast í lengstu lög að ágreiningurinn fari úr böndum og leiði til álíka klofnings og í áratugi dró úr þjóðinni kraft. Við þurfum öll að vanda okkur og nýta lýðræðið til að efla og styrkja samstöðuna.

Við sjáum ýmis merki þess að afstaðan til náttúrunnar kunni að verða viðlíka hitamál og herinn var fyrrum. Þúsundir mótmæla á götum Reykjavíkur á sama tíma og íbúar Austurlands fagna nýjum áföngum í byggðaþróun," segir Ólafur Ragnar Grímsson.

Forseti Íslands sagði í ræðu sinni að náttúra Íslands er okkur öllum kær, samofin sjálfstæðisvitund Íslendinga, uppspretta þjóðarauðs og framfara á flestum sviðum.

„Þegar ágreiningurinn um veru hersins hefur nú verið til lykta leiddur með brottför varnarliðsins er afar brýnt að deilurnar um nýtingu náttúru Íslands skapi ekki nýja gjá. Þjóðarsátt í erfiðum málum er verðmæt auðlind og með samstöðuna að leiðarljósi eru okkur allir vegir færir. Í anda þeirrar sýnar bið ég alþingismenn að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar," segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert