Jón Sigurðsson gagnrýnir bók Andra Snæs, Draumalandið

Þau stóriðjuverkefni sem nú eru helst á döfinni, við Húsavík, í Helguvík, og í Straumsvík, eru á vegum heimamanna og undir stjórn þeirra og sjálfstæðra fyrirtækja en ekki undir forræði iðnaðarráðuneytisins. Þetta kom fram í ræðu Jóns Sigurðssonar, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, á fundi Samtaka iðnaðarins undir yfirskriftinni Náttúruvernd og nýting náttúruauðlinda, í dag. Í ræðu sinni gagnrýndi iðnaðarráðherra margt sem kemur fram í bók Andra Snæs Magnasonar, Draumalandið en sagði jafnframt að bókin væri tímabær og skemmtileg og margt í henni er heillandi og aðlaðandi eins og annað sem þessi höfundur hefur látið frá sér fara.

Að sögn Jóns er Kárahnjúkavirkjun og það sem henni tengist eitt það síðasta sem tilheyrir gamla kerfinu sem var í gildi til ársins 2003 en þá lauk stóriðju- og virkjanastefnu íslenskra stjórnvalda, með breytingum sem þá voru gerðar á stjórnsýslu og umhverfi á þessum vettvangi.

Fram kom í ræðu Jóns að afstaða langflestra Íslendinga til verndunar og nýtingar auðlindanna er sama afstaða og ríkisstjórnin og Framsóknarflokkurinn aðhyllast.

„Langflestir eru í senn nýtingarsinnar og verndunarsinnar og sjá ekki andstæðu í þessu. Aðeins örfáir vilja hamast áfram með framkvæmdir sem víðast, og aðeins örfáir aðrir vilja stöðva allar framkvæmdir og ný verkefni. Eins og allir vita blandast heitar tilfinningar inn í þetta, vísindalegur metnaður og margs konar sárindi og misskilningur.

Meginstefna Íslendinga miðar að því að þroska hér þekkingarsamfélag með fjölbreyttu atvinnulífi og framtaki, en orka og iðnaður eru aðeins hluti af þessu.

Næsti megináfangi verður, að minni hyggju, gerð heildstæðrar rammaáætlunar um nýtingu og vernd náttúruauðlindanna. Þetta verður sameiginlegt verkefni sem á að geta stuðlað að víðtækri sátt meðal þjóðarinnar um þessi mikilvægu málefni.

Margt hefur verið talað og skrifað um þessi mál að undan förnu. Fyrir nokkru kom út bókin Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason. Þetta er skemmtileg og vel skrifuð bók með þeim geðþekka og aðlaðandi blæ sem einkennir önnur verk höfundarins.

Meginstef bókarinnar eru hrífandi:

Við þurfum að losa um viðjar tæknihyggju og efnishyggju og losa um þær viðjar sem almennar umræður hafa lagt á ímyndunarafl og nýsköpunarmátt; - við eigum að vefengja ráðandi viðhorf og benda á möguleika og úrræði önnur en virkjanir og stóriðju; - höfundur vill hjálpa lesanda að sigrast á ótta við þessa vefengingu og ótta við aðrar leiðir sem til greina koma.

Þetta er góður og tímabær boðskapur, - en ég hef líka ýmsar athugasemdir að gera við málflutninginn í bókinni.

Á 101. bls. er fjallað um möguleika til að komast út úr vandræðum og öngstræti í samfélagsþróun, en þetta er gert með þeim hætti sem kynni að ýta um of undir kæruleysi í rökfærslum.

Þar er boðað að þjóðin geti komist „út úr kreppuhugsuninni" eins og það er orðað. En þarna er ekkert til skýringar á margra áratuga reynslu á landsbyggðinni í atvinnuhnignun og skorti á nýsköpun.

Höfundurinn skautar yfir vandamál í byggðaþróun margra áratuga eins og ekkert sé. Það er sem sé fátt lagt fram til að mæta þeim sögulegu og efnahagslegu forsendum sem liggja til grundvallar ákvörðunum stjórnvalda og heimamanna.

Á 151. bls. er skyndileg tenging yfir í stórframkvæmdirnar á Austurlandi. Þessi tenging er mjög mikilvæg fyrir allan þann málstað sem bókin kynnir og allan málflutning höfundarins í bókinni yfirleitt.

Umfjöllun í bókinni um stórframkvæmdirnar á Austurlandi hvílir á þeim grunni að einmitt þessi tenging, á 151. bls., sé ótvíræð og rökvíslega réttmæt. Þessi tenging í lesmálinu er gerð með mjög hugvitsamlegum hætti sem þó verður ekki talinn laus við áróður. Þessi tengsl eru nefnilega ekki rökvíslega nauðsynleg eða ótvíræð málefnaleg ályktun.

Ég get til dæmis vel tekið undir flest framan af í bókinni, en verið samt ósammála tengingunni á 151. bls.

Ég get tekið undir með höfundinum um þau heillandi stefnumið bókarinnar sem ég taldi upp áður, án þess í sjálfu sér að ég sé með því að láta í ljós einhverja tiltekna skoðun á tilteknum verklegum framkvæmdum.

Tengingin yfir í stórframkvæmdirnar fyrir austan er þess vegna ekki sannfærandi á þann hátt sem greinilega vakir fyrir höfundinum. Röklegu tengslin og forsendurnar fyrir ályktunum hans standast því ekki með þeim hætti sem höfundurinn stefnir að.

Lesandi kann að kjósa að fylgja málflutningi höfundar, ef lesandanum þá þóknast af öðrum ástæðum, en röksemdafærslan í bókinni nægir ekki til þess. Mikið af röksemdafærslunni í bókinni er ádeila á skrif eins nafngreinds manns og hefur þar af leiðandi takmarkað almennt gildi.

Á 176. bls. gagnrýnir höfundur að Ísland skuli hafa verið kynnt sem "ódýr orka".

En stofnunin sem þetta boðaði hefur m.a.s. verið lögð niður og verkefnum hennar hætt af opinberri hálfu. Ef „ódýr orka" er forsenda fyrir gagnrýni höfundar, þá má ætla að afstaða hans mótist af kröfu um hærra verð fyrir orkuna.

En málflutningurinn í bókinni miðast þó allur við andstöðu við verklegar framkvæmdir af öðrum ástæðum. Í þessu er æpandi mótsögn í málsmeðferð höfundarins og skaðar í raun málstað hans.

Lesandi verður ekki alveg viss um það hvort höfundurinn boðar andstöðu gegn stórvirkjunum vegna náttúruverndarsjónarmiða eða hann gagnrýnir orkusölusamningana vegna þess að þeir gefi ekki nægilegan gróða.

Margir áköfustu virkjanasinnar munu eflaust taka heilshugar undir kröfu um sem allra hæst verð. En varla er það ætlun höfundarins að styðja málflutning þeirra.

Enn er þess að geta að Íslandskort á 179. og 183. bls. eru mjög villandi eins og hver maður getur séð sem ferðast um landið. Á 255. bls. er mjög hæpinn og kæruleysislegur samanburður við árangur margra áratuga starfs í Rovaniemi í Finnlandi og látið að því liggja að slíkur árangur kunni að vera auðveldur og skjótfenginn.

Bókinni lýkur með fyndinni léttúð á 259. bls., - en sannleikurinn er sá að það ristir ekki dýpra þarna, heldur er þetta aðeins fyndni og léttúð og skaðar málstaðinn líka þótt skemmtilegt sé og lýsi frjóu ímyndunarafli og hugkvæmni höfundarins.

Höfundur ber þarna saman verðmat á mannvirkjunum á Austurlandi við verðmat á stórfyrirtækinu Disney, en lesandinn er engu nær um röklegt samhengi.

Höfundur ímyndar sér að frægt listaverk Ólafs Elíassonar fylli hvelfinguna miklu sem grafin hefur verið inn í fjall þar eystra, - en lesandinn spyr: Er þetta gamansemi um listamanninn Ólaf Elíasson, eða um þetta listaverk hans, - eða gefur höfundurinn hér ímyndunarafli sínu og gamansemi lausan tauminn alveg út í bláinn? Þetta minnir nefnilega á orð hans á öðrum stað í bókinni þar sem hann talar um „fullkominn fiðrildaheim".

Höfundurinn vefengir eins og ég sagði áður, og það er réttmætt og tímabært að vefengja. En það má líka vefengja málflutning hans sjálfs eins og ég hef nefnt dæmi um. Ég er sem sagt gagnrýninn m.a. á tenginguna sem birtist allt í einu á 151. bls. og óánægður með ýmislegt annað í bókinni. En hún er tímabær og skemmtileg og margt í henni er heillandi og aðlaðandi eins og annað sem þessi höfundur hefur látið frá sér fara," segir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka